Maðurinn sem skotið var að í Hafnar­firði í gær segir að skotmaðurinn hafi aug­ljós­lega reynt að drepa hann og son hans. Þeir eru báðir í miklu á­falli eftir at­vikið.

Mateusz Dariusz er sá sem skotið var á, en hann ræddi málið í kvöld­fréttum RÚV í kvöld.

„Svo heyrði ég ein­hvers konar smell. Fyrst hélt ég að þetta væru ein­hver hljóð í bílnum, að eitt­hvað skemmdist. Smellurinn var ekki mjög hár en vel heyran­legur. Nokkrum sekúndum síðar heyrði ég annan smell en hærri og svo fann ég fyrir gleri rigna á bakið og höfuðið á mér,“ sagði Mateusz.

Mateusz opnaði því næst hurðina á bílnum til að at­huga hvað hafi gerst, þegar hann sér mann á svölunum með byssu.

„Ég hrópaði á hann „hvað ertu að gera?" og „hættu þessu" og sagði að ég ætlaði að hringja í lög­reglu. Svo hringdi ég strax í lög­reglu. Það var hvort sem er enginn annar á bíla­stæðinu nema við feðgarnir.“

Hann segir að hann hafi spurt manninn af­hverju hann væri að þessu, sem maðurinn svaraði að hann héldi að Mateusz væri ein­hvers konar glæpa­maður.

Mateusz segir að at­vikið hafi tekið mjög á hann og son hans. Hann vonar að þetta hafi ekki varan­leg á­hrif á hann.

„Mér myndi aldrei detta í hug að eitt­hvað slíkt gæti komið hérna upp. Ég er í miklu upp­námi. Guði sé lof að ég er á lífi. Sonur minn er á lífi og enginn annar hefur meiðst í þessum hræði­lega at­burði.“

Við­talið við Mateusz má sjá á vef RÚV.