Lokið hefur verið við reglubundna skoðun á TF-GRO, þyrlu Landhelgisgæslunnar, en skoðuninni lauk í kvöld. Þyrlan er því orðin útkallshæf á ný en Landhelgisgæslan hefur verið þyrlulaus frá því á fimmtudag.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, greindi frá því í samtali við Fréttablaðið fyrir helgi að þyrlan yrði ekki tiltæk fyrr en í sunnudag en það gæti tafist ef skoðunin tæki lengri tíma.

Greint var frá því í gær að skoðunin hafi verið umfangsmeiri en búist var við og því yrði hún ekki tilbúin í dag. Samkvæmt tilkynningu um málið lauk viðhaldsvinnunni á níunda tímanum í kvöld en flugvirkjar Gæslunnar hafa unnið að kappi um helgina við skoðun vélarinnar.

Ljóst er að mikið sé um uppsafnaða viðhaldsþörf hjá Landhelgisgæslunni sem þarf að taka á en verkfall flugvirkja hefur þar haft mikil áhrif.

Alþingi samþykkti síðastliðinn föstudag stjórnarfrumvarp dómsmálaráðherra um stöðvun verkfalls flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni en flugvirkjar höfðu þá verið í verkfalli frá 5. nóvember síðastliðnum.