Rannsóknarteymi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, mun á næstu dögum ræða við starfsmenn Veirufræðistofnunar Wuhan vegna kórónaveirufaraldursins en veiran kom fyrst upp í kínversku borginni í lok desember 2019.
Teymið hélt til borgarinnar í janúar og mun rannsókn standa yfir næstu vikur. Þau rannsaka nú upptök faraldursins og hvernig veiran breiddist út en staðfest smit á heimsvísu eru tæplega 104 milljón talsins og hafa tæplega 2,26 milljónir manna látist.
Kínversk yfirvöld hafa verið treg til að hleypa teyminu inn í landið en samþykktu heimsóknina þó að lokum eftir langar viðræður við WHO. Vel virðist hafa tekist að hemja útbreiðslu faraldursins þar í landi en Kína er aðeins með um 100 þúsund staðfest tilfelli og 4820 andlát.
Rannsaka upptökin
Að því er kemur fram í frétt AP fréttastofunnar um málið mun teymið ræða við starfsmenn um ýmsa mikilvæga hluti sem snúa að faraldrinum en teymið heimsótti stofnunina í gær. Óljóst er nákvæmlega hvað starfsmenn verða spurðir út í en teymið hefur lítið tjáð sig um heimsóknina.
Meðal meðlima rannsóknarteymisins eru veirufræðingar, dýrafræðingar, matvælaöryggisfræðingar og aðrir sérfróðir frá Bandaríkjunum, Þýskalandi, Rússlandi og fleiri löndum.
Talið er að það muni taka nokkur ár að staðfesta upptök faraldursins en meðal þess sem verið er að skoða er hvort, og þá hvernig, veiran hafi borist til manna úr villtum dýrum.
The team plans to visit hospitals, laboratories and markets. Field visits will include the Wuhan Institute of Virology, Huanan market, Wuhan CDC laboratory. They will speak with early responders and some of the first #COVID19 patients.https://t.co/Owd6GEBoAj
— World Health Organization (WHO) (@WHO) January 28, 2021