Tesla var mest seldi bíllinn á Íslandi í mars með 240 selda bíla samkvæmt nýjum tölum frá Bílgreinasambandinu, en Toyota kemur þar á eftir með 217 selda bíla.

Sala nýrra fólksbíla heldur áfram að aukast jafnt og þétt frá áramótum, en fyrstu þrjá mánuði þessa árs hafa 3.218 bílar selst í samanburði við 2.089 bíla í sömu mánuðum á síðasta ári.

Sala nýrra fólksbíla í mars jókst um ríflega 50 prósent miðað við mars í fyrra, en alls var skráður 1.451 nýr fólksbíll í mars í ár en 956 nýir fólksbílar í sama mánuði í fyrra.

Til einstaklinga seldust 734 nýir fólksbílar í mars samanborið við 570 á sama tíma í fyrra og er því aukning í sölu til einstaklinga nærri 30 prósent milli ára í mars. Á árinu 2022 hafa selst 1.675 nýir fólksbílar til einstaklinga en í fyrra hafði selst 1.261 nýr fólksbíll á sama tíma sem þýðir aukningu í sölu til einstaklinga um þriðjung á þessu ári.

Á árinu 2022 hefur sala nýrra fólksbifreiða í ökutækjaleigur aukist gríðarlega og hefur sú aukning hlutfallslega mest áhrif á sölukipp nýrra fólksbifreiða á þessu ári.

Nýorkubílar eru tæplega 66 prósent allra seldra nýrra fólksbíla á árinu en hlutfall nýorkubíla heldur áfram að aukast jafnt og þétt samkvæmt þessari talnasamantekt Bílgreinasambandsins. ■