Vel hefur gengið hjá rafbílaframleiðandanum Tesla að auka framleiðslu sína undanfarið og afgreiða uppí þær miklu pantanir sem fyrir liggja, aðallega á Model 3 bílnum. Í nýliðnum desember setti Tesla nýtt sölumet er fyrirtækið afgreiddi 25.250 Model 3 bíla bara í Bandaríkjunum. Framleiðsla og sala bílsins hefur tekið stórtækum stökkum undanfarið, en í desember í fyrra afgreiddi Tesla aðeins 1.060 Model 3 bíla. Sú tala var komin uppí 6.000 í maí, 14.250 í júlí og 22.250 í september. Samtals seldi Tesla 139.782 Model 3 bíla í Bandaríkjunum á nýliðnu ári. 

Heildarsala Tesla Model 3 bílsins í Bandaríkjunum er nú orðin hærri en á nokkrum öðrum rafmagnsbíl og gerðist það á rétt ríflega einu ári. Til samanburðar 25.250 bíla sölu á Model 3 í desember einum má nefna að besta söluár á Nissan Leaf í Bandaríkjunum var 30.200 bílar árið 2014. Árið 2017 seldust þó aðeins 11.230 Nissan Leaf bílar í Bandaríkjunum. Í desember seldi Tesla líka 3.250 Model S og 4.100 Model X bíla og því er samanlögð sala Tesla í desember 32.600 bílar og er það söluhæsti bílasölumánuður í sögu þessa unga bílaframleiðanda. Tesla seldi alls 191.627 bíla í fyrra í Bandaríkjunum en tölur um sölu til annarra landa liggja ekki fyrir enn sem stendur.