Tesla frumsýndi nýjan Model Y bíl sinn í gær, en þar fer bíll sem tekur alt að 7 manns í sæti og flokkast sem SUV bíll, eða Sport Utility Vehicle og liggur líklega á milli þess að vera jepplingur og fjölnotabíll. Model Y er með öflugar rafhlöður sem duga til allt að 480 km aksturs á fullri hleðslu. Bíllinn er að auki mjög kraftmikill og fer sprettinn í hundraðið á litlum 3,5 sekúndum í sinni öflugustu gerð. Verð ódýrustu útgáfu hans verður 39.000 dollarar en sú útgáfa mun ekki fást fyrr en vorið 2021. Ódýrari útgáfa hans verður ekki eins öflug og fer í 100 á 5,9 sekúndum og kemst 370 km á fullri hleðslu. Dýrasta gerðin mun kosta um 60.000 dollara. 

Þessi bíll verður því mun ódýrari kostur en núverandi Model X jeppi og ætti það eitt að stækka kaupendahópinn hjá Tesla. Tesla Model Y er talsvert stærri bíll en Model 3 bíll Tesla sem afgreiddur er nú til margra kaupenda, en Model Y verður ekki á ósvipuðu verði. Flest í innanrými Model Y mun ekki koma eigendum Model 3 bílsins á óvart þar sem hann er með svo til eins útliti og fyrirkomulagi, enda margt sameiginlegt með bílunum. Bílinn verður hægt að fá fjórhjóladrifinn. Tesla Model Y mun koma á göturnar seint á næsta ári.