Næsti framleiðslubíll rafbílaframleiðandans Tesla verður jepplingurinn Model Y sem byggður verður á Model 3 bílnum sem Tesla keppist nú við að fjöldaframleiða í sem mestu magni. Áður uppgefin áform Tesla varðandi útkomu Model Y bílsins voru í mars árið 2020, en nú heyrast raddir frá Tesla um að hann muni verða kominn í framleiðslu í nóvember á næsta ári, eða 5 mánuðum fyrr. Meiningin er svo að hefja framleiðslu á Model Y í Kína tveimur árum seinna. Tesla telur að Model Y verði fljótlega söluhæsta bílgerð fyrirtækisins, enda mikil eftirspurn eftir jepplingum í heiminum í dag. 

Elon Musk, forstjóri og aðaleigandi Tesla telur mögulegt að koma framleiðslu Tesla bíla í Bandaríkjunum í um 500.000 bíla á ári frá og með enda þessa árs, en með reynslu af fyrri draumamarkmiðum Elon Musk telja margir að það muni engan veginn nást. Tesla er þó núna að nálgast 5.000 bíla framleiðslumarkið á viku, en það þýðir 260.000 bíla á ári. Það mun því þurfa að tvöfalda það frameiðslumark á næstu 8 mánuðum svo takmark Musk náist.