Tesla lækkaði verð á bílum eftir áramót á heimsvísu og í mörgum tilvikum um hundruð þúsunda króna.

Dæmi er um að Tesla Model Y Performance, sem kostaði 9.270.000 krónur í desember síðastliðnum á Íslandi, hafi lækkað um 421.000 krónur í verði, samkvæmt athugun Fréttablaðsins.

Lækkunin á Íslandi er ekkert einsdæmi, en sami bíll, Tesla Model Y Performance, lækkaði um átta þúsund pund í Bretlandi fyrir jól.

Stutt er frá því að verð á Tesla-bílum lækkaði í Kína og fyrir vikið gerðu óánægðir kaupendur áhlaup á sýningarsali, þar sem þeir höfðu verið nýbúnir að kaupa bíla á hærra verði.

Samkvæmt fréttamiðlinum Reuters er lækkunin allt að 20 prósent á sumum bílum og nær hún einnig til Bandaríkjanna.