Plastúrgangur frá garðyrkjustöð sem losaður var í landi Spóastaða í Bláskógabyggð hefur nú loks verið fjarlægður, þremur árum eftir að hin ólöglega losun fór fram. Plastið hafði verið blandað jarðefnum.

Þegar tilkynning barst um losunina á árinu 2019 hafði Bláskógabyggð samband við fyrirtækið Terra sem sá um hirðu frá garðyrkjustöðinni og fór fram á að plastið yrði fjarlægt. Terra hugðist ráðast í það verkefni en fyrir sex vikum kom það fram á fundi framkvæmdanefndar sveitarfélagsins að ekki hefði orðið af því.

Valgeir M. Baldursson, forstjóri Terra, segir hreinsun svæðisins nú á lokastigi. Handvömm hafi orðið til þess á sínum tíma að plastið fylgdi með jarðefnunum á losunarstaðinn og síðan hafi farist fyrir að fjarlægja það.

Ekki hafi verið um mikið magn að ræða. Sá sem rekið hafi garðyrkjustöðina hafi blandað plastinu í gróðurúrgang sem ekki hefði átt að gera.

„En hvort sem þetta var lítið magn átti ekki plast að fara þarna niður. Það er verið að leggja lokahönd á frágang á svæðinu núna, verið að sigta mold og ná úr plastinu,“ segir forstjóri Terra.