Settir hafa verið upp 500 jarðskjálftamælar á Hengilssvæðinu en það er stærsta og þéttasta net mæla sem sett hefur verið upp hér á landi. Á meðfylgjandi mynd má sjá kort af svæðinu þar sem mælarnir eru merktir inn. Hengillinn er því þakinn jarðskjálftamælum.

Til samanburðar má nefna að 56 mælar fylgjast með jarðhræringum á Reykjanesi, m.a. í tengslum við Geldingadalagosið.

Uppsetning mælanna er hluti af hinu svonefnda DEEPEN verkefni þar sem rannsakaðar eru rætur jarðhitakerfa svo nýta megi þekkinguna þegar farið verður að bora dýpri holur við nýtingu jarðhita.

Verkefnið er styrkt af alþjóðlega sjóðnum Geothermica, í gegnum Rannís, en sjóðurinn er samstarfsverkefni nokkurra Evrópulanda, auk Bandaríkjanna, sem veitir reglulega styrki til jarðhitarannsókna á borð við DEEPEN.

Væntingar eru til þess að auðvelda stækkun jarðhitasvæða niður í jörðu og lengja líftíma virkjana Orku náttúrunnar án þess að raska þurfi nýjum svæðum, segir Vala Hjörleifsdóttir, forstöðumaður Nýsköpunar og framtíðarsýnar hjá OR í tilkynningu í dag.

Vala Hjörleifsdóttir
Mynd/ON