Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti, segir að betur horfi nú með nauðsynlegar framkvæmdir við Skálholtskirkju heldur en áður en hann sendi kirkjuráði bréf um málið í sumarlok.

Eins og kom fram í Fréttablaðinu í gær gagnrýndi Skálholtsbiskup kirkjuráð harðlega vegna skorts á framkvæmdum sem séu afar aðkallandi í Skálholti.

Kirkjuráð tók bréf Kristjáns fyrir í september og ítrekaði að ráðið stæði við fyrri samþykkt frá í apríl um að farið yrði í viðgerðir á þaki Skálholtskirkju, turni kirkjunnar og ytra byrði. Kristjáni fannst hins vegar lítið hafa orðið um framkvæmdir í framhaldinu.

„Það er nokkuð um liðið síðan ég sendi þann harða lestur á kirkjuráð. Það má alveg segja að það hafi ýmislegt komist á skrið í haust síðan erindið var fært til bókar og eitt og annað hefur þokast til betri vegar síðan þá,“ útskýrir Kristján. Til dæmis sé „þakpapparæma“ nú komin yfir versta sárið á þakinu.

„Það er búið að stöðva þakleka og leka inn í kirkjuna til bráðabirgða en með nokkuð öruggum hætti. Það er mikill munur. Versti lekinn var þar sem tenórinn er í Skálholtskórnum og verður það mikill léttir að hefja aftur kóræfingar „á þurru“ þegar það verður hægt fyrir jólin,“ lýsir Skálholtsbiskup stöðunni. Margt sé þó ógert.

Verður það mikill léttir að hefja aftur kóræfingar „á þurru“ þegar það verður hægt fyrir jólin.

„Einnig hefur verið unnið rösklega að undirbúningi að endurnýjun þaksins í samvinnu við Minjastofnun og er ljóst að skipta þarf um þakklæðninguna í heild með nýjum steinflísum frá Noregi. Í sömu áætlun verða gluggar í turni endurnýjaðir, gert verður við sprungur og kirkjan máluð að utan og innan,“ segir Kristján.

Viðgerðum ljúki vonandi fyrir 60 ára vígsluaflmælið

Þetta sé stór áfangi sem vonandi verði hafist handa við á næsta ári og lokið fyrir 60 ára vígsluafmæli kirkjunnar 2023. Þetta sé allt byggt á fyrrnefndri ákvörðun kirkjuráðs.

Sömuleiðis segir Kristján að unnið hafi verið að þakviðgerð á Skálholtsskóla og rakaviðgerð sé lokið á herbergjum sem voru illa farin. Þá sé búið að ljúka byggingarnefndarferli vegna endurhönnunar á Gestastofunni nýju.

„Það er húsið þar sem áður bjó biskup og þar áður rektor lengi og þar sem Lýðháskólinn byrjaði starfsemi sína. Búið er að fá verktaka til að byrja á vinnu utanhúss og aðfyllingu,“ útskýrir biskup. Vonandi verði hægt að nota nýju Gestastofuna til að taka á móti ferðafólki í vor. „En húsið verður einnig notað sem þjónustuhús við kirkjulegar athafnir og aðstaða fyrir tónlistarfólk, sem og kaffihús og skrifstofur.“

Baráttumál að koma bókasafninu á jarðhæð

Bókasafn Skálholts er á hrakhólum. „Baráttumálið snýst um það að koma þessu dýrmæta bókasafni í sal á jarðhæð Gestastofunnar með sýningaraðstöðu og aðstöðu til að sinna því safni. Það er núna í háskalega slæmu húsnæði uppi í turni kirkjunnar og fáum aðgengilegt,“ segir Kristján.

Enda er hér saga okkar allra í ellefu hund­r­uð ár.

Endurgerð unnin á listaverkum Gerðar og Nínu

Þá nefnir Skálholtsbiskup að kirkjuráð hafi kostað rafhleðslustöðvar og einnig ljósleiðara með Bláskógabyggð. Verndarsjóður Skálholtsdómkirkju vinni að endurnýjun á kirkjuklukkunum. Margir hafi stutt endurgerð á listgluggum Gerðar Helgadóttur og altarismynd Nínu Tryggvadóttur.

„Vonandi gengur jafn vel með þessi verkefni sem öll varða menningarverðmæti og dýrmæti þessa þjóðarhelgidóms Íslendinga enda er hér saga okkar allra í ellefu hund­r­uð ár.