Marktæk fylgni er á milli tunglstöðu og tíðni skurðaðgerða við ósæðarflysjun, sem er lífshættulegur sjúkdómur, en rofi á ósæðinni er aðeins forðað með flókinni bráðaskurðaðgerð. Þetta kemur fram í rannsókn á vegum tíu norrænna háskólasjúkrahúsa.

Þetta staðfestir Tómas Guðbjartsson, prófessor og hjartaskurðlæknir á Landspítalanum, sem leitt hefur rannsóknina. Í ljós kom að fjórum til sex dögum eftir fullt tungl aukast líkur marktækt á á ósæðarflysjun. Svipuðum niðurstöðum hefur verið lýst áður í minni rannsókn.

Rannsóknarhópurinn hefur á síðustu árum kannað ýmsa þætti sem hafa áhrif á árangur þessara flóknu skurðaðgerða, til dæmis hvort máli skiptir hvenær dags skurðaðgerðir eru gerðar, sem ekki reyndist raunin, en í kjölfarið vaknaði spurningin hvort tunglstaða gæti haft áhrif.

Áhrif tunglstöðu á geðheilsu hefur verið rannsökuð, eins og áhrif hennar á svefn, en sannað er að svefntruflanir geta valdið hækkuðum blóðþrýstingi. Í þessari rannsókn var ekki hægt að skýra af hverju tíðnin hækki rétt eftir fullt tungl, en höfundar leiða líkur að því að það geti tengst svefntruflunum á fullu tungli og hækkuðum blóðþrýstingi, sem er stærsti áhættuþáttur ósæðarflysjunar.