„Það er meira að gera núna en var í september í fyrra, þá var reyndar líka mikið að gera,“ segir Gauti Grétarsson sjúkraþjálfari. Hann segir að fjölgun þeirra sem leiti til sjúkraþjálfara nú megi að miklu leyti rekja til COVID-19 faraldursins og afleiðinga hans.

Skipta má þeim sem leita til sjúkraþjálfara af völdum COVID-19 í fimm hópa. „Þeir sem hafa orðið veikir af COVID geta glímt við stoðkerfisvandamál sem rekja má til lungnabólgunnar og að hafa legið í rúminu í tvær til fjórar vikur. Þegar fólk er búið að ná sér af sýkingunni þá vill það byrja á sama stað aftur,“ segir Gauti.

Nefnir hann sem dæmi einstakling sem stundaði hlaup áður en hann veiktist. „Hann byrjar að hlaupa eins og hann gerði áður en hann veiktist. Það þarf að byrja á núllpunkti. Það tekur þrjár vikur að ná sér eftir eina viku uppi í rúmi. Það getur tekið rúmar níu vikur fyrir einhvern sem var rúmliggjandi í þrjár vikur að ná sér upp í sama form og áður. Það er hópur sem rekur sig á vegg með því að fara of geyst af stað.“

Ýmis þreytueinkenni geta komið upp og verkir í stoðkerfinu, þá getur tekið talsverðan tíma að ná upp góðri lungnastarfsemi.Annar hópurinn er þeir sem hafa unnið heima í fjarvinnu við verri aðstæður en á vinnustaðnum, við það bætast gjarnan minni samskipti við aðra. „Aðstæðurnar geta verið mun verri heima fyrir, til dæmis hvað varðar líkamsstöðu,“ segir Gauti. „Þegar fólk er búið að venja sig á slæma líkamsstöðu getur það verið óafturkræft nema það þjálfi sig upp að nýju. Þegar maður er búinn að sitja eins klessa þá finnst manni það vera eðlilegt.“ Eru þá dæmi um að fólk finni fyrir verkjum, en tengi þá ekki við slæma líkamsstöðu.

„Fólk kannski fær höfuðverki, bakverki eða verk í axlirnar út frá þessari röngu líkamsstöðu.“Þá er hópurinn sem hefur misst vinnuna vegna efnahagsástandsins tvískiptur. Annars vegar þeir sem hreyfa sig minna, sem glíma við sömu einkenni og þeir sem fóru í langa sjálfskipaða sóttkví vegna faraldursins, og hins vegar þeir sem fóru að hreyfa sig of mikið. „Þessir þrír hópar hafa allir þróað með sér ýmis álagseinkenni,“ útskýrir Gauti.

„Það þarf að líta til allra þátta þegar kemur meðferðinni. Þeir sem hafa misst vinnuna hafa gjarnan áhyggjur af tekjum, andleg vellíðan hefur mikið að segja þegar kemur að líkamlegri líðan.“