Landsréttur þyngdi í dag fangelsisdóm yfir konu á áttræðisaldri sem stakk tengdason sinn með hnífi á Akranesi árið 2018. Konan var dæmd fyrir tilraun til manndráps og dómurinn þyngdur úr fjórum árum í fimm ár.

Konan hélt stað­fast­lega fram sak­leysi sínu og sagðist jafn­vel telja að tengda­sonur hennar hefði gengið á hnífinn. Á­rásin varð þegar konan gætti barna­barna sinna á heimili dóttur sinnar og tengda­sonar að kvöldi 10. nóvember 2018. Dóttirin var er­lendis og maðurinn að heiman.

Konan sagði við aðal­með­ferð málsins að maðurinn hafi komið heim, mjög pirraður, öskrað og kallað hana illum nöfnum. Kvaðst hún að­spurð hafa drukkið tvo bjóra, en sak­sóknari benti á að vín­anda­magn í blóði hennar hafi mælst 1,95 prómill.

Í ákæru kom fram að stungusárið á manninum, sem var hægra megin við brjóstkassa, hafi verið þriggja til fjögurra sentímetra breitt. Það hafi verið á milli fjórða og fimmta rifjabili, og inn í breiðasta bakvöðvann, eins og það er orðað.

Þetta olli manninum skaða á tveimur litlum slagæðum „með verulegri blæðingu“.

Tengdasonurinn hefur sagt að konan hafi reynt að hindra hann í því að kalla eftir hjálp, svo sem með því að fela fartölvu og síma. Þá hafi hún skorið á hjólbarða bíls hans. Honum tókst að loka sig af og hringja í sambýliskonu sína og kalla þannig eftir aðstoð.

Hnífurinn fannst í bíl fyrir utan heimilið, ásamt blóðugum fötum.

Skaðabætur sem konunni er gert að greiða manninum nema 813 þúsundum króna.