Athugasemdir Brynjars Níelssonar á Facebook voru í aðalhlutverki í Landsrétti í gær þegar munnlegur málflutningur fór fram um hæfi dómarans Arnfríðar Einarsdóttur, eiginkonu Brynjars, til að dæma mál skjólstæðinga Vilhjálms H. Vilhjálmssonar lögmanns.

Krafan er sett fram á grundvelli meintrar persónulegrar afstöðu dómarans í garð lögmannsins, vegna Landsréttarmálsins sem hann flutti bæði fyrir innlendum dómstólum og við Mannréttindadómstól Evrópu.

Í málflutningnum rifjaði Vilhjálmur upp ummæli Brynjars um grein sem birtist í Fréttablaðinu í júlí í fyrra þar sem Vilhjálmur hélt því fram að Sigríður Andersen, þá dómsmálaráðherra, hefði skipað Arnfríði dómara við Landsrétt af greiðasemi við Brynjar Níelsson sem hafi þá þegar eftirlátið Sigríði fyrsta sæti á framboðslista flokks þeirra í Reykjavík.

Vilhjálmur las næst upp upphaf Facebook-færslu Brynjars um greinina fyrir Arnfríði og meðdómendur hennar tvo: „Stundum ber kappið fegurðina ofurliði þegar sparka þarf í pólitíska andstæðinga. Slíkt henti gamlan kollega, Vilhjálm H. Vilhjálmsson, eða Villa Vill, eins og hann er gjarnan nefndur, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í morgun.“

Vilhjálmur vísaði einnig til yfirlýsingar sem Brynjars sem fylgdi greinargerð ríkisins til yfirdeildar Mannréttindadómstólsins í Landsréttarmálinu þar sem Brynjar segist hafi aldrei séð jafn rakalausar aðdróttanir af hálfu lögmanns.

Með þessum ummælum og öðrum sem meðal annars Gústaf Níelsson, bróðir Brynjars og mágur Arnfríðar, lét falla telur Vilhjálmur að eiginmaður Arnfríðar og fjölskylda tengi málið persónu sinni sem valdi því að aðrir umbjóðendur hans geti ekki treyst því að mál þeirra fái hlutlausa meðferð fyrir dómi sem Arnfríður situr í.

Lögmaður stefndu tók ekki afstöðu til kröfu Vilhjálms en um er að ræða áfrýjað mál kvenna sem dæmdar voru í héraði til að greiða skjólstæðingum Vilhjálms bætur vegna ummæla sem þær létu falla um þá í svokölluðu Hlíðamáli.