„Þið getið troðið þessum viðskiptaþvingunum … Þið eruð kjölturakkar Ameríkananna,“ sagði Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, við breska ríkisútvarpið BBC þegar hann var spurður um afstöðu sína til viðskiptaþvingana af hálfu Vesturlanda.

Viðskiptaþvinganirnar ná nú til olíuafurða sem eru stór tekjulind landsins sem og fjármálaþjónustu. Í gær tilkynntu bresk stjórnvöld að flugvélar frá Hvíta-Rússlandi mættu ekki fljúga inn í breska lofthelgi.

Lúkasjenkó hafnaði því á blaðamannafundi í gær að leyniþjónusta hans stæði að baki dauða stjórnarandstæðingsins Vitalys Shishov. Shishov vann við að hjálpa samlöndum sínum sem flúið höfðu til Úkraínu í kjölfar mótmælanna í Hvíta-Rússlandi í fyrra þar sem þúsundir voru fangelsaðar. „Hver var hann fyrir mér og fyrir Hvíta-Rússland? Fyrir okkur var hann ómerkingur,“ sagði Lúkasjenkó.

27 ára valdatíð Lúkasjenkós hefur verið í deiglunni frá forsetakosningunum í fyrra sem hann kvaðst hafa unnið. Lúkasjenkó var harðorður á blaðamannafundinum, þeim fyrsta eftir kosningarnar, og sagði að aðgerðir Vesturlanda gætu komið af stað þriðju heimsstyrjöldinni.

Þá hæddist hann að hlaupakonunni Krystinu Timanovskaya sem sótti um hæli í Póllandi í kjölfar Ólympíuleikanna. „Hún lenti í 36. sæti í greininni sinni, það þarf ekkert að ræða það frekar.“ ■