Þrjátíu og sjö ára gömul kona kveðst hafa orðið fyrir byrlun þegar hún var úti að skemmta sér með vinum aðfaranótt 27. mars. Hún hafi drukkið lítið um kvöldið en fengið sér bjór í flösku nálægt miðnætti, í einkasamkvæmi á lokuðum næturklúbbi á Edition hótelinu, þar sem fyrir lá gestalisti.

Konan segist skyndilega hafa fundið fyrir lömun í líkamanum, eftir tvo sopa af bjórnum.

Konan fór heim í leigubíl og segist hafa átt fullt í fangi með að komast inn í íbúðina sína. Þegar hún vaknaði morguninn eftir hafi hún fundið fyrir sjóntruflunum og áttað sig á því að ekki væri allt með felldu. Hún hafi tekið bjórflöskuna með sér heim fyrir rælni, og því haft hana heima hjá sér á þeim tíma.

Eiturlyfjapróf greindi benzo-lyf

Hún hafi næst afráðið að hafa samband við Læknavaktina, en fengið þar ábendingar um að ekkert væri gert í slíkum málum og þar væru blóðsýni ekki tekin. „Læknarnir standa ekki í því,“ hefur konan eftir vakthafandi hjúkrunarfræðingi við símaráðgjöf. Hjúkrunarfræðingurinn hafi ráðlagt henni að kaupa eiturlyfjapróf til að ganga úr skugga um byrlun. Konan gerði það og segir eiturlyfjaprófið hafa sýnt merki um benzo-lyf í þvagi.

Konan segist hafa hringt í lögregluna í framhaldinu, en fengið þau svör að lítið yrði við þessu gert, ekki yrðu tekin sýni af flöskunni og það borgaði sig ekki fyrir hana að gefa skýrslu. Slíkt væri eingöngu tímasóun.

Lögregla tekur ekki skýrslu

Konan segist hafa mætt til lögreglunnar í annað sinn fjórum dögum seinna, eftir að mesta áfallið var liðið hjá. „Ég er sett þarna fram á gang þar sem allir labba fram hjá. Ég segi henni að ég sé ekki tilbúin að opna mig um svona viðkvæmt mál á einhverjum gangi.“ Hún kveðst hafa fengið þau svör að kanna þyrfti mikilvægi málsins áður en hægt væri að bóka rými fyrir viðtalið. „Ég spyr: Mikilvægi? Mér var byrlað, er það ekki mikilvægt?“

Konan segir að ekkert hafi verið skrifað niður á þeim tímapunkti. „Ég spyr hvort ekki sé einhver vitundarvakning í gangi með öryggi á djamminu og þá er svarið: Nei, það vorum við aldrei að gera. Heldur þú að við höfum fjármagnið og mann­aflann í það?“

Konan segir að fulltrúi lögreglunnar hafi ekki tekið skýrslu vegna málsins. „Henni fannst þetta ekki nógu mikilvægt. Við töluðum í klukkutíma. Mér blöskraði hversu lítið var gert úr þessu.“

Konan hringdi á Læknavaktina.
Mynd/Hafsteinn

Ekki leyfi til að skoða myndbönd

Fulltrúi hafi spurt hana hvort blóðsýni hafi verið tekið. Konan segist hafa reynt það en ekki fengið það í gegn. „Ég fór ekki á neyðarmóttökuna af því að ég vissi ekki að ég ætti að fara þangað,“ segir hún.

„Kannski var Læknavaktarinnar að benda mér á að fara á neyðarmóttökuna en ekki láta mig keyra um allan bæ í alvarlegu ástandi að leita að eiturlyfjaprófi, sönnunargagni sem enginn vill sjá. Það vill enginn eiturlyfjaprófið eða flöskuna sem varð eftir, til að rannsaka þetta. Þannig að ekkert er skjalfest,“ segir konan.

Hún segir fulltrúa Edition hafa verið samvinnuþýða og allt viljað fyrir hana gera, en hins vegar komi persónuverndarlög í veg fyrir að hægt sé að skoða myndbandsupptökur úr veislunni, til þess þurfi dómsúrskurð. Þaðan hefur hún einnig upplýsingar um að fleiri en þeir sem voru á gestalista hafi fengið aðgang, með samþykki aðstandenda viðburðarins, sem gefið var á staðnum umrætt kvöld.

Konan segist hafa beðið lögregluna um að skoða myndböndin en uppskorið háð. Hún hafi verið spurð hvort hún héldi virkilega að lögreglan skoðaði slík myndbönd.

Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu
Fréttablaðið/Anton Brink

Mikil auglýsingaherferð í gangi

Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að mikil auglýsingaherferð sé í gangi um þessar mundir þar sem fólk er hvatt til að líta til með fólki í kringum sig.

„Það er samstarfsverkefni lögreglunnar, Neyðarlínu og fleiri aðila,“ segir Ásgeir.

Fyrr í vikunni sagði Ásgeir í samtali við blaðið, ótengt þessu máli, að í tilfellum þar sem grunur leikur á um byrlun séu slík mál alltaf tekin alvarlega og tekin séu sýni, auk blóðsýna og læknisrannsóknar.

Elfa Björk Ragnarsdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur á Læknavaktinni, segir að tilfellum sem þessu sé ætíð vísað á bráðamóttöku og svörin sem konan hafi fengið í þessu tilfelli séu ekki stöðluð svör samkvæmt þeirra verklagi. Læknavaktin taki heldur ekki blóðprufur og hafi aldrei gert.