Reykjavík Einar S. Hálfdánarson, lögmaður og löggiltur endurskoðandi, sendi borgarráði Reykjavíkur bréf á dögunum þar sem hann segist efast um að reikningsskilaaðferð Félagsbústaða hf. standist skoðun. Einar er þrautreyndur í sínu fagi og situr í endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar.

Félagsbústaðir eru gerðir upp samkvæmt alþjóðlegum reikningsstöðlum, IFRS. Í bréfi sínu bendir Einar á að Félagsbústaðir séu ekki reknir í hagnaðarskyni og slík félög í öðrum EES-löndum noti ekki IFRS-staðla. Vísar Einar í minnisblað KPMG frá árinu 2012 þar sem endurskoðunarfyrirtækið komst að þeirri niðurstöðu að IFRS ætti ekki við hjá Félagsbústöðum.

Í núverandi fyrirkomulagi eru fasteignir Félagsbústaða gerðar upp á gangvirði sem þýðir að árlega hækkar virði eigna félagsins í takt við þróun á markaði. Eðlilegra telur Einar að eignirnar yrðu metnar á afskrifuðu kostnaðarverði.

Segir Einar vafa á hvort notkun Félagsbústaða á IFRS sé heimil samkvæmt íslenskum lögum en ekki síður hvort við hæfi sé að gera eignirnar upp á gangvirði.

Kjörnir fulltrúar kynnu að vera persónulega ábyrgir

Bendir Einar einnig á að kjörnir fulltrúar kynnu að vera persónulega ábyrgir ef svo ólíklega vildi til að kröfuhafar Félagsbústaða létu á það reyna hvort ársreikningar Félagsbústaða hf. hefðu gefið glögga mynd af rekstri og efnahag félagsins. Þá kynni sú persónulega ábyrgð einnig að ná til endurskoðunarnefndar Félagsbústaða og borgarinnar.

Bréf Einars var rætt á fundi borgarráðs í síðustu viku. Meirihluti Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna lét bóka að þær skoðanir sem komu fram í bréfi Einars hefðu verið til umfjöllunar í endurskoðunarnefnd borgarinnar og að fjármálasvið Reykjavíkurborgar hefði leitað sér álit óháðs aðila sem hefði staðfest framkvæmd borgarinnar.

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, hefur ítrekað bent á óeðlilegt misræmi á uppgjörsreglum A-hluta Reykjavíkurborgar og Félagsbústaða. Uppgjör Félagsbústaða samkvæmt IFRS búi til froðu í uppgjöri Reykjavíkurborgar. Tilgangurinn sé að búa til rými til frekari lántöku borgarinnar.

„Þessum ágreiningi verður að koma úr ráðhúsinu. Ekki verður hjá því komist lengur að fá úrskurð reikningsskila- og upplýsinganefndar sveitarfélaga og Ríkisendurskoðunar á þessum uppgjörs­kúnstum, sem skipta svo miklu máli í rekstri borgarinnar á þann hátt að ef þeim verður breytt þá er borgin komin í veruleg fjárhagsleg vandræði. Borgarfulltrúi mun senda erindi þess efnis til þessara aðila,“ segir í bókun Vigdísar.