Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi sjálfstæðisflokksins segir þær lausnir sem meirihlutinn í Reykjavík kynnti í leikskólamálum í dag séu ekki nægilega ítarlegar þess að koma til móts við þann vanda sem skapast hefur í borginni.

„Ég fagna því auðvitað að það séu einhverjar lausnir kynntar hjá meirihlutanum, en þær eru alls ekki nægilegar. Það vantar ákveðin töluleg gögn, það vantar raunhæfar áætlanir og tímaramma og áætlanir um mönnun,“ segir Hildur sem tekur fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lagt fram tólf tillögur á vandanum vikunni sem ekki hafa verið samþykktar.

„Þeim hefur ekki verið hafnað en þær hafa heldur ekki verið teknar til afgreiðslu“ segir hún.

Enn vanti mikið upp á úrlausnir

Hildur segir að mikið vanti upp á í bæði haldbærum tölum um fjölda barna og hvernig aðgerðum verði háttað til þess að raunverulega sé hægt að telja að lausn sé í höfn. Þetta sé eitthvað sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi varað við strax þegar loforð um dagvistun barna voru birt.

„Við bentum á það strax í mars, þegar öll þessi loforð voru gefin um að hvert barn fengi pláss fyrir tólf mánaða aldur núna í haust, að fyrirliggjandi aðgerðir myndu ekki skila þessum árangri,“ segir Hildur og bætir við: „Meirihlutinn gekkst við því í byrjun júní að geta ekki staðið við gefin loforð og ég sakna þess að ekki hafi verið farið í vinnu strax á þessum tíma við að leita lausna. Að það hafi þurfti þessi mótmæli foreldra til að fólk vaknaði upp og færi að leita lausna,“ segir Hildur og bendir á að fjölgun leikskólabarna á næstu árum muni fljótlega gera úrræðin úrelt

„Mannfjöldaspár gera ráð fyrir gríðarlegri fjölgun barna á leikskólaaldri á næstu árum og aðgerðirnar taka ekki mið af því. Þannig að við erum að horfa á ört vaxandi vanda ef við förum ekki að horfa á einhverjar nýjar lausnir í leikskólamálum,“ segir Hildur

Svipað þeim hugmyndum sem áður var hafnað

Foreldrar höfðu áður hafnað mörgum þeim tillögum sem kynntar voru í dag, meðal annars að nýta frístundarheimili, Korpuskóla og Bakka undir dagvistun barna og telur Hildur að þetta sé merki um örvæntingu.

„Það á kannski að beita þessum úrræðum vegna þess að neyðin er svo mikil. En það sem við höfum líka kallað eftir er fjölgun á leikskólarýmum þar sem þörfin er mest og það er gríðarleg þörf vestarlega í borginni, í Vesturbænum, Laugardalnum og Fossvoginum og á fleiri svæðum, en þessi úrræði munu ekki svara þörfinni þar,“ segir Hildur og að næstu skref Sjálfstæðisflokksins verði að halda áfram að taka þátt í þeirri vinnu sem er framundan og fylgja eftir eigin tillögum

„Við erum að leggja til nýjar og skapandi lausnir um öðruvísi rekstur á leikskólum, til að mynda foreldrareknir leikskólar, það eru til fordæmi þess í Reykjavík sem hafa gefið góða raun og styðja við sjálfstætt starfandi leikskóla,“ segir Hildur sem bendir einnig á þær lausnir sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur áður viðrað um að stærri vinnustaðir opni sína eigin leikskóla

„Eða að minni vinnustaðir geti rekið einhverskonar daggæslu. Þannig þurfum við bara að horfa með opnum huga á skapandi lausnir og ef að aðilar þarna úti, hvort sem það eru einstaklingar eða fyrirtæki, vilja koma með lausnir að borðinu þá munum við taka þeim fagnandi,“ segir Hildur.