„Það hefur verið ljóst í nokkurn tíma að nútímamaðurinn kom fram í Afríku fyrir um 200.000 árum en það sem hefur ekki verið ljóst er hvaðan nákvæmlega forfeður okkar koma,“ segi Vanessa Hayes, prófessor í erfðafræði við Garvan-rannsóknarstofnunina í Ástralíu.

Vísindamenn telja sig nú hafa fundið svarið við því hvar mannkynið er upprunnið og er svæðið sem um ræðir sunnan við Zambesi-fljót í Botsvana. BBC greinir frá.

Svæðið einkennist nú af saltlagi en þar var að öllum líkindum mikið af vatni. Samkvæmt vísindamönnum var svæðið heimkynni manna í 70.000 ár þar til loftslag breyttist og í kjölfarið færðu menn sig á frjósamari svæði og hófust þannig flutningar mannkynsins út úr Afríku.

„Þetta er ákaflega stórt svæði sem virðist hafa verið mjög blautt og gróskumikið. Það hefur verið hentugt til búsetu bæði fyrir menn og dýr,“ segir Hayes.

Rannsókn hennar sýnir fram á að mennirnir hafi upphaflega haldið í norðaustur frá Zambesi-svæðinu og að því næst hafi önnur bylgja frumbyggja fært sig í til suðvesturs.

Hayes segir að hægt hafi verið að draga upp mynd af svæðinu bæði með erfðarannsóknum og jarðfræði ásamt því að líkja eftir loftslaginu á svæðinu með tölvulíkani.

Gagnrýnisraddir um rannsóknina hafa heyrst víða og segir Chris Stringer, prófessor á Náttúrufræðisafninu í London, að ekki sé litið til allra þátta við gerð rannsóknarinnar.

„Ég held að það sé stiklað á stóru við gerð rannsóknarinnar. Það að horfa einungis á einn hluta erfðamengis mannsins og einungis eina staðsetningu gefur okkur ekki alla söguna um uppruna mannsins,“ segir Stringer og bætir við:

„Ef rannsóknin hefði verið umfangsmeiri hefðu mögulega fundist fleiri en einn staður sem væru fyrstu heimahagar mannsins.“