Orð sem féllu á lokuðum fundi varðandi samgöngumál í Kópavogi urðu að umfjöllunarefni í opnum Facebook-hópi. Hjördís Ýr Johnson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, lagði fram fyrirspurn vegna málsins í gær, en það voru hennar ummæli sem voru til umræðu

„Við vorum að ræða samgöngumál á lokuðum fundi, og það næsta sem ég veit að þá er komin umræða um þetta í lokuðum hópi á Facebook,“ segir Hjördís, sem vill meina að orð sín hafi verið tekin úr samhengi og rangt farið með mál hennar.

Hjördís tekur fram að færslunni hafi nú verið eytt, og að hún hafi komið frá einstaklingi sem sat ekki fundinn, og telur hún að einhver hafi því komið umræddum ummælum á framfæri.

„Þetta setur leiðinlegan tón á nýtt kjörtímabil,“ segir Hjördís sem segir mikilvægt að það ríki traust á lokuðum fundum. „Ef það ríkir ekki traust þá mun fólk veigra sér við að tjá sig. Það er miður ef við ætlum að fara þessa leið.“