Velferðarnefnd Alþingis mun á fjarfundi í dag taka upp þráðinn þar sem frá var horfið með frumvarp félagsmálaráðherra um hlutdeildarlán. Frumvarpinu, sem er hluti af aðgerðum stjórnvalda vegna lífskjarasamninga, er ætlað að auðvelda ungu fólki og tekjulágum að komast inn á húsnæðismarkaðinn.

Upphaflega stóð til að afgreiða málið síðastliðið vor en ákveðið var að fresta því til hausts. Alþingi mun koma saman til framhaldsfunda í lok mánaðarins en þá verður einnig lögð fram fjármálaáætlun fyrir árin 2021-2025 og fjallað um breytingar á fjármálastefnu fyrir árin 2018-2022.

„Ég tel að við eigum ekki langt í land með að klára málið út úr nefndinni. Áður en við fórum í frí kynntum við áherslur meirihlutans fyrir nefndinni þannig að nefndarmenn hafa fengið tíma til að melta þetta,“ segir Halla Signý Kristjánsdóttir, fulltrúi Framsóknarflokksins í velferðarnefnd og framsögumaður málsins í nefndinni.

Hún segir að sumarið hafi meðal annars verið nýtt til að viðra tillögurnar við ráðuneytið. Gestakomum í nefndinni lauk í júní og segir Halla Signý að nú verði farið yfir áherslur nefndarmanna.

„Við ætlum okkur núna að fara yfir það og taka annan snúning áður en við sendum þessar breytingatillögur til umsagnar hjá hagsmunaaðilum.“

Halla Signý segist vilja kynna lokatillögur meirihlutans fyrir nefndinni áður en hún ræði innihald þeirra frekar.

„Grunnmarkmið frumvarpsins heldur sér að mestu leyti en svo eru líka tæknilegar breytingar og útfærslur sem við leggjum til. Við erum í raun að taka tillit til athugasemda sem komu fram. Það er þó aldrei hægt að gera öllum til geðs en við erum að taka tillit til umsagna svona eins og þol er,“ segir Halla Signý.

Halla Signý.

Umsagnaraðilar gerðu ýmsar athugasemdir við einstaka þætti frumvarpsins þótt flestir hafi lýst yfir stuðningi við markmið þess. Verkalýðshreyfingin hefur lagt mikla áherslu á að málið verði afgreitt.

„Við bíðum mjög spennt eftir því að sjá hvað kemur út úr vinnu nefndarinnar. Þetta er auðvitað gríðarlega mikilvægt mál fyrir okkur,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, 1. varaforseti ASÍ.

Verkalýðshreyfingin hefur þó gagnrýnt nokkra þætti frumvarpsins og þá helst að sett séu tekjumörk á þá sem geta nýtt sér úrræðið.

„Ég geri ráð fyrir því að það sé verið að taka tillit til þess. Þegar við vorum að vinna í þessu þá var þetta ekki hluti af því uppleggi. Það mun skipta miklu máli að það verði gert og hvernig það verður gert. Þetta þarf að vera almennara úrræði fyrir fleiri hópa,“ segir Kristján Þórður.

Þá minnir hann á að afgreiðsla málsins tengist kjarasamningunum og endurskoðun þeirra í haust. „Þess vegna er það gríðarlega mikilvægt að þetta klárist núna þegar þingið kemur aftur saman.“