Fólk sem starfar með flóttafólki telur efnahagsmálin og orðræðu fólks á samfélagsmiðlum og víðar spila inn í aukna andstöðu við komu flóttafólks. Nauðsynlegt sé að auka fræðslu og spyrna við þróuninni.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær sýnir ný könnun Prósents að afstaðan til flóttafólks hefur harðnað. Alls er sveiflan tíu prósent frá þeim sem telja að Ísland veiti of fáu flóttafólki hæli yfir til þeirra sem telja Ísland veita of mörgu hæli.

„Fólk talar á villandi hátt um þessi mál. Vissulega fylgja því útgjöld að taka á móti fólki en líka ávinningur,“ segir Nichole Leigh Mosty, forstöðumaður Fjölmenningarseturs. Verðbólgan og slæmar efnahagshorfur hérlendis og erlendis hafi áhrif. Hún segir félagsráðgjafa og aðra sem starfa með flóttafólki þekkja best þann ávinning sem hlýst af því að taka við fólki. „Það vantar fólk og fjölbreytni er frábær fyrir samfélagið,“ segir hún.

Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða krossins, segir umræðuna um flóttafólk og kostnað oft villandi. Bendir hann á skýrslu Arion banka frá árinu 2015 þar sem kom fram að hagræn langtímaáhrif komu flóttafólks væru jákvæð.

„Mesta áhyggjuefnið er hversu margir eru á flótta í heiminum,“ segir Atli Viðar. Vopnuð átök í Evrópu valdi stórum hluta aukningarinnar. Alþjóðlegar skuldbindingar séu samtryggingarkerfi. „Heilt yfir tel ég að landsmenn séu velviljaðir gagnvart flóttafólki. Við þekkjum það í gegnum okkar sögu að hafa þurft að leggja á flótta,“ segir hann.

Aðspurð segir Nichole ekki endilega óttast að kynþátta- eða útlendingahatur sé að aukast. Hins vegar sé könnunin vísbending um að þörf sé á að spyrna við. Ríkið þurfi að verja meira fé í fjölbreytnifræðslu, til dæmis á vinnustöðum og stofnunum. „Viðhorfið er númer eitt,“ segir hún