„Það þarf að hugleiða þann þátt að leikskólarnir skuli taka við sífellt yngri börnum. Það á sinn þátt í ofvexti leikskólastigsins og gögn sýna berlega að leikskólarnir eru alls ekki í stakk búnir fyrir þessa viðbót,“ segir Haraldur Freyr Gíslason, formaður félags leikskólakennara, um stöðu dagvistunarmála í Reykjavík. Sú framtíðarstefna sem sveitarfélög og ríki hafi í leikskólamálum gangi einfaldlega ekki upp.
Haraldur telur skynsamlegra og betra fyrir börn að lengja fæðingarorlofið til 18 mánaða aldurs, en með því væri hægt að lengja dvalartímann í áföngum eftir því sem börnin eldast, eða fram að tveggja ára aldri.
„Þá gæti fæðingarorlofskerfið og leikskólakerfið talað saman. Á þessu sex mánaða tímabili kæmu börn inn hægt og rólega þar til leikskólinn tæki alveg við af fæðingarorlofskerfinu,“ segir Haraldur.
Spurður segir Haraldur núverandi stöðu í dagvistunarmálum almennt ekki koma leikskólakennurum á óvart. Lengi hafi legið fyrir að kerfið þoli ekki þennan hraða vöxt.
„Það er eitt að hafa framtíðarsýn og stefnu til framtíðar í málaflokknum en það er annað að tímasetja rétt í hvaða skrefum hægt er að ná markmiðunum,“ segir Haraldur. Síðastliðið vor hafi leikskólamál verið stórt kosningamál, þar sem flestir flokkar ætluðu sér að brúa bilið milli leikskóla og fæðingarorlofs.
„En fáir höfðu raunverulegar hugmyndir um það hvernig fara mætti að því og enn færri lögðu fram tillögur sem myndu ráðast að rót vandans, sem er að fjölga leikskólakennurum,“ segir Haraldur, og bætir við: „ef sá vandi er ekki leystur munu allar tilraunir til að stækka leikskólakerfið, til dæmis með því að taka inn yngri börn, draga úr gæðum leikskólastarfs og hafa alvarleg áhrif á starfsumhverfi leikskólakennara.“