„Það þarf að hug­leiða þann þátt að leik­skólarnir skuli taka við sí­fellt yngri börnum. Það á sinn þátt í of­vexti leik­skóla­stigsins og gögn sýna ber­lega að leik­skólarnir eru alls ekki í stakk búnir fyrir þessa við­bót,“ segir Haraldur Freyr Gísla­son, for­maður fé­lags leik­skóla­kennara, um stöðu dag­vistunar­mála í Reykja­vík. Sú framtíðarstefna sem sveitar­fé­lög og ríki hafi í leik­skóla­málum gangi ein­fald­lega ekki upp.

Haraldur telur skyn­sam­legra og betra fyrir börn að lengja fæðingar­or­lofið til 18 mánaða aldurs, en með því væri hægt að lengja dvalar­tímann í á­föngum eftir því sem börnin eldast, eða fram að tveggja ára aldri.

„Þá gæti fæðingar­or­lofs­kerfið og leik­skóla­kerfið talað saman. Á þessu sex mánaða tíma­bili kæmu börn inn hægt og ró­lega þar til leik­skólinn tæki alveg við af fæðingar­or­lofs­kerfinu,“ segir Haraldur.

Spurður segir Haraldur nú­verandi stöðu í dagvistunarmálum al­mennt ekki koma leik­skóla­kennurum á ó­vart. Lengi hafi legið fyrir að kerfið þoli ekki þennan hraða vöxt.

„Það er eitt að hafa fram­tíðar­sýn og stefnu til fram­tíðar í mála­flokknum en það er annað að tíma­setja rétt í hvaða skrefum hægt er að ná mark­miðunum,“ segir Haraldur. Síðast­liðið vor hafi leik­skóla­mál verið stórt kosninga­mál, þar sem flestir flokkar ætluðu sér að brúa bilið milli leik­skóla og fæðingar­or­lofs.

„En fáir höfðu raun­veru­legar hug­myndir um það hvernig fara mætti að því og enn færri lögðu fram til­lögur sem myndu ráðast að rót vandans, sem er að fjölga leik­skóla­kennurum,“ segir Haraldur, og bætir við: „ef sá vandi er ekki leystur munu allar til­raunir til að stækka leik­skóla­kerfið, til dæmis með því að taka inn yngri börn, draga úr gæðum leik­skóla­starfs og hafa al­var­leg á­hrif á starfs­um­hverfi leik­skóla­kennara.“