Spænski ónæmisfræðingurinn Corina Amor, segir að ekki sé óraunhæft að með breytingum á svokölluðum öldrunarfrumum í mannslíkamanum verði hægt að lengja líftíma fólks verulega, upp í allt að 120 til 130 ár.

Í doktorsritgerð sinni, sem hún skilaði þegar hún var aðeins 27 ára, leiddi Amor rök að því að hægt verði að eyða öldrunarfrumunum sem stuðla að elli og krabbameini. Öldrunarfrumur eru skemmdar frumur sem ekki geta lengur skipt sér. Í æsku er mannslíkaminn fær um að eyða þessum frumum en með aldrinum hættir ónæmiskerfið að ráða við þær og þær fara að hrannast upp.

Hugmynd Amors, sem hún hefur reynt ásamt teymi sínu með bandaríska líffræðingnum Scott Lowe, gengur út á að taka T-eitilfrumur úr líkamanum og gera á þeim breytingar svo að þær ráðist á öldrunarfrumurnar. Niðurstöður tilrauna sem teymið hefur gert á músum voru birtar í vísindatímaritinu Nature fyrir tveimur árum.

„Þegar maður tók öldrunarfrumurnar úr músunum lifðu þær lengur,“ sagði Amor í viðtali við El País. „Það hefur verið mikill áhugi fyrir því að reyna að ná sömu niðurstöðum með lyfjum sem menn gætu tekið.“

Amor segir að aðallega hafi heppnast að framlengja þann tíma sem mýsnar voru við góða heilsu. Hún telur að með þessum aðferðum verði hægt að bæta lífsgæði og heilsu manna fram á mun hærri aldur. Hún efast þó um að hún hafi fundið lykilinn að ódauðleikanum.

„Ég held að lífslíkur séu ákvarðaðar á erfðafræðilegu stigi,“ sagði Amor. „Ég væri sátt ef við gætum lifað fram á 100 ára aldur við há lífsgæði þannig að okkur liði vel, við gætum farið út á hverjum degi og verið sjálfstæð.“

Amor telur þó að hægt verði að framlengja ævidaga mannfólks verulega, og segir það raunhæft að með þessu móti gæti fólk orðið 120 til 130 ára gamalt.