Valtýr Stefánsson Thors barnasmitsjúkdómalæknir telur ekki liggja á að bólusetja yngri börn gegn Covid-19 sem stendur. Hann segir börn almennt veikjast minna en fullorðnir og smitast síður.„Ef við horfum á faraldurinn hér á Íslandi þá hafa núna um og yfir átta hundruð börn smitast af Covid og ekkert þeirra veikst alvarlega,“ segir Valtýr og bendir á að þeim sé veitt mikil eftirfylgni á Covid-göngudeild Barnaspítala Hringsins.

Þá virðist Covid-sýking hafa lítil áhrif á ungbörn og almennt koma þau mjög vel út úr svoleiðis. Einhver dæmi eru erlendis um ungbörn sem smitast við fæðingu eða jafnvel í móðurkviði og vegnar vel eftir sýkingu.

Búið er að bólusetja börn niður í fimmtán ára aldur en samkvæmt Valtý er það í þeim aldurshópi sem einkenni líkjast helst því sem fullorðnir glíma við. Einhver börn sem hafa undirliggjandi sjúkdóma eða eru í sérstökum áhættuhóp hafa verið bólusett niður í tólf ára aldur.

Ekki er til markaðsleyfi fyrir bóluefni barna yngri en tólf ára en einhver fyrirtæki hafa byrjað að sækjast eftir því og eru að gera rannsóknir með bóluefni fyrir börn niður í tveggja ára aldur og jafnvel yngri.

„Persónulega og út frá þeim gögnum sem við höfum finnst mér ekkert liggja á að bólusetja yngri börn,“ segir Valtýr. Hins vegar segir hann að það væri gagnlegt að geta bólusett öll börn til að hjálpa til við að halda faraldrinum fjarri.

Valtýr Stefánsson Thors barnasmitsjúkdómalæknir.
Fréttablaðið/Anton

Þrátt fyrir að ekkert gefi til kynna hingað til að bóluefni virki illa á börn eða valdi aukaverkunum sem ekki hafa sést hjá fullorðnum telur Valtýr farsælla að bíða nokkra mánuði eftir meiri gögnum.„Ef við ætlum að bólusetja heilbrigð börn þá verður þetta að vera öruggt,“ segir Valtýr.

Barnalæknar hjá Barnaspítala Hringsins eru nú að vinna að rannsókn um það hvort Covid-sýkingar hafi langvarandi áhrif á börn. Valtýr segir það ekki enn vera vel kortlagt hjá börnum þó að það hafi eitthvað verið skoðað.

„Ef það kemur í ljós að umtalsverður hluti barna sem hafa greinst með Covid er með langvarandi einkenni þá væri það lóð á vogarskálar þess að hefja bólusetningu hjá hraustum börnum,“ segir hann en vonast er til þess að búið verði að safna öllum gögnum í lok ágúst.

Stærra lýðheilsuvandamálið er að mati Valtýs andleg og sálræn áhrif á börn og unglinga eftir mikla röskun á eðlilegu skóla- og frístundastarfi síðasta eina og hálfa árið. Hann segir að börn og unglingar hafi mörg átt erfiðara með að sinna námi sínu og að einhverjir hafi þurft að hætta í menntaskóla.

„Ég held það ætti að vera eitt af helstu markmiðunum að halda skólunum opnum og halda lífi barna og unglinga eins eðlilegu og hægt er til að tryggja velferð þeirra. Allir geta verið sammála um að það sé eitt það mikilvægasta sem við getum gert,“ segir Valtýr.