Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir það „opna spurningu“ hvort Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, haldi vinsældum sínum eða hvort sá stuðningur sem hún mælist með sé nýjabrum. Það sé ekki óalgengt að nýir foringjar fái vind í seglin en það sé athyglisvert hversu hátt hún sé að fara. Samkvæmt könnun Fréttablaðsins í gær treysta rúm 25 prósent henni best allra formanna.
„Flestir eru sammála um að Kristrún er mjög öflugur málsvari,“ segir Ólafur.
Hvað traust til Katrínar Jakobsdóttur varðar segir Ólafur alltaf varasamt að bera saman spurningar í könnunum nema þær séu nákvæmlega eins orðaðar. „Hins vegar er breytingin svo mikil miðað við aðrar kannanir að það er full ástæða til að ætla að þetta sé raunveruleg breyting,“ segir hann.

Ólafur telur tvennt valda þessu. Annars vegar vinsældir Kristrúnar og hins vegar sé spenna í ríkisstjórnarsamstarfinu eftir faraldurinn, það er að málefnaágreiningur Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sé sífellt að koma betur í ljós og þar af leiðandi óánægja. Fylgi stjórnarflokkanna og stjórnarinnar hafi verið undir 50 prósentum í nokkurn tíma. „Það hafa komið upp mörg mál sem eru mjög óþægileg fyrir VG,“ segir Ólafur. Má nefna til dæmis Íslandsbankasöluna og brottvísanir hælisleitenda.
„Vinsældir foringja eru ekki áskrift á aukið fylgi,“ segir Ólafur. Þrátt fyrir vinsældir Katrínar hafi Vinstri græn tapað fylgi árið 2021 en Framsókn hefur unnið stóra sigra án persónulegra vinsælda Sigurðar Inga. Vinsældir geti þó styrkt flokkinn innbyrðis og út á við, til dæmis í viðræðum um stjórnarmyndun.
Hvað varðar litlar vinsældir Bjarna Benediktssonar utan Sjálfstæðisflokksins segir Ólafur að það gefi til kynna að kjósendahópur flokksins sé orðinn hugmyndafræðilega einsleitari en áður. Skoðanir flokksmanna rými illa við annarra nema Miðflokksmanna.