Kristján Þór Júlíus­son, sjávar­út­vegs- og land­búnaðar­ráð­herra, segist rétt ætla að vona að hug­rekki Arnars Hilmars­sonar, há­seta af frysti­togaranum Júlíusi Geir­munds­syni, verði ekki til þess að hann missi starf sitt hjá út­gerð togarans. Kristján telur ógnar­stjórn ekki bundna við sjávar­út­veginn, hún finnist innan fyrir­tækja í flestum at­vinnu­greinum.

Ráð­herrann var gestur í Silfrinu í dag en hann fór þar yfir mál skip­verja Júlíusar Geir­munds­sonar. Hóp­sýking kórónu­veiru kom upp meðal þeirra í þriggja vikna löngum veiði­túr. Skip­stjóri skipsins og út­gerðin gerðu Land­helgis­gæslunni ekki vart um veikindi innan á­hafnarinnar, þegar þau komu upp strax á öðrum degi ferðarinnar.

Há­seti togarans tjáði sig um að­stæður um borð í togaranum eftir að veikindin höfðu komi upp í fréttum í gær. Að­spurður sagðist há­setinn ekki óttast að missa starf sitt: „Tjáning mín á málinu er ó­endan­lega verð­mætari en starf mitt þarna um borð,“ sagði hann.

Kristján Þór var spurður um það í Silfrinu hvort hann teldi það merki um of­beldiskúltúr og ó­eðli­lega menningu innan út­gerðarinnar að öllum þætti það eðli­leg spurning hvort há­setinn gæti misst vinnuna fyrir að tjá sig við fjöl­miðla. „Ég held að svona ógnar­stjórn sé ekkert bara bundin við sjávar­út­veg,“ sagði Kristján Þór þá. „Þetta er til alls staðar í fyrir­tækjum.“

„Ég ætla nú rétt að vona að þessi heiðar­leiki hjá þessum unga sjó­manni bitni ekki á honum þannig að hann missi at­vinnu eða neitt því um líkt. Þetta er bara frá­bært dæmi um ein­stak­ling sem þorir að stíga fram og er á­gætis mál­svari fyrir ís­lenska sjó­menn við þær að­stæður sem þarna skapast,“ hélt hann á­fram og hrósaði há­setanum mikið fyrir að þora að tjá sig um málið. „Það þarf mikinn kjark til að koma fram með þessum hætti og ég tek ofan af fyrir þessum unga manni.“

22 af 25 áhafnarmeðlimum togarans sýktust af Covid-19.
Mynd/Guðm. Sig.

Gerir ráð fyrir rannsókn lögreglu

Eins og hefur verið greint frá krefjast verka­lýðs­hreyfingar tengdar skip­verjunum þess að málið verði rann­sakað af lög­reglu. Ljóst er að út­gerðin og skip­stjóri togarans hefðu átt að til­kynna Land­helgis­gæslu um veikindin um leið og þau komu upp á öðrum degi ferðarinnar og sigla togaranum í land. Það var ekki gert, túrinn hélt á­fram og fóru skip­verjar ekki í sýna­töku fyrr en þremur vikum eftir að túrinn hófst. Þá fyrst frétti Land­helgis­gæslan af gruni um smit.

Spurður út í laga­legar af­leiðingar fyrir út­gerðina í málinu sagði ráð­herrann lög­fræðina í þessum málum ekki vera á sínu borði. „Það gilda náttúru­lega á­kveðin lög í þessum efnum. Það eru sjó­manna­lög sem kveða á um það með hvaða hætti skuli taka á á­lita­efnum, sem koma upp hjá út­gerð, skip­stjóra og öðrum á­hafnar­með­limum ef veikindi koma upp. Ég geri bara ráð fyrir því að þetta verði skoðað,“ sagði hann.