Þórunn Svein­bjarnar­dóttir fyrr­verandi um­hverfis­ráð­herra Sam­fylkingarinnar frá 2007-2009 segir breytingar í nýrri ramma­á­ætlun mikla aftur­för og telur ljóst að Vinstri græn hafi verið beitt þrýstingi frá Sjálf­stæðis og Fram­sóknar­flokki. Vísir greinir frá.

Ný ramma­á­ætlun hefur ekki verið lögð fyrir Al­þingi í níu ár, frá því að annar á­fangi á­ætlunarinnar var sam­þykktur árið 2013. Meiri­hluti um­hverfis- og sam­göngu­nefndar sam­þykkti í gær breytingar­til­lögur ríkis­stjórnar­flokkanna og verður á­ætlunin lögð fram í vikunni.

„Ég held að það sé alveg ljóst að allir náttúru­verndar­sinnar á Ís­landi þurfa núna að taka upp símann og ræða við þing­mennina sína um þessa breytingar­til­lögu meiri­hlutans,“ segir Þórunn Svein­bjarnar­dóttir, þing­maður Sam­fylkingarinnar, í sam­tali við Stöð 2.

Breytinga­til­lögurnar sem stjórnar­flokkarnir lögðu fram hafa þó vakið at­hygli en lagt var til að færa á­kveðna virkjunar­kosti á milli flokka.

„Það þarf að af­greiða ramma­á­ætlun en það er ekki sama hvernig það er gert. Það er aug­ljóst að Vinstri hreyfingin grænt fram­boð hefur látið undan þrýstingi Fram­sóknar­flokks og Sjálf­stæðis­flokks,“ segir Þórunn. Að hennar mati marka til­lögurnar á­kveðin þátta­skil þegar kemur að stöðu VG sem náttúru­verndar­hreyfingar.

Hrika­leg aftur­för í náttúru­vernd

Að mati Þórunnar eru þó ein­hver góð tíðindi í til­lögunum, sem dæmi voru ein­hverjir kostir færðir úr nýtingar­flokki í bið­flokk, en í heildina litið telur hún þær þó ekki til bóta.

„Ég ætla kannski ekki að segja að þetta sé ó­sigur Vinstri grænna en þetta er hrika­leg aftur­för, hrika­legt bak­slag í náttúru­vernd á Ís­landi, ef þessar til­lögur verða sam­þykktar,“ segir hún.

Orri Páll Jóhanns­son, þing­flokks­for­maður Vinstri grænna, greindi frá því í dag að hann eigi von á að meiri­hlutinn sam­þykki ramma­á­ætlunina með breytingar­til­lögunum, þrátt fyrir and­stöðu innan flokksins.

Að mati Þórunnar væri það í and­stöðu við bar­áttu VG í gegnum tíðina en Sam­fylkingin mun að öllum líkindum leggja fram sínar eigin breytingar­til­lögur í vikunni.