Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir segir nú­verandi stöðu þegar kemur að CO­VID-19 far­aldrinum hér á landi ekki kalla á hertar að­gerðir af hans hálfu en síðast­liðna fimm daga hafa reglu­lega komið upp smit utan sótt­kvíar. Næstu dagar verða að leiða í ljós hvort smit sé út­breitt í sam­fé­laginu.

Af þeim sem greindust í gær var einn í sótt­kví og tengdist hann hóp­smiti í Skaga­firði sem kom upp um helgina. Tveir greindust utan sótt­kvíar og tengdist annar þeirra einnig hóp­smitinu en hinn var ný­kominn úr sótt­kví þegar hann greindist og því ó­lík­legt að margir hafi verið út­settir í tengslum við það smit.

„Við þurfum að skoða hvar þessi smit eru, voru margir út­settir og erum við að sjá ein­hverja starf­semi sem er að valda á­hættu. Þá þurfum við náttúru­lega að endur­skoða þær reglur sem eru í gangi,“ segir Þór­ólfur í sam­tali við Frétta­blaðið en hann segir reglu­lega týnast inn einn og einn sem ekki er í sótt­kví.

Kæmi ekki á óvart ef fleiri smit koma upp

Lög­reglan á Norður­landi vestra greindi frá því á sunnu­dag að gripið yrði til hertra að­gerða til að bregðast við smitunum í Skaga­firði. Til að mynda var boðuðum til­slökunum, sem tóku gildi um allt land á mánu­dag sam­kvæmt reglu­gerð heil­brigðis­ráð­herra, frestað um viku í Skaga­firði og Akra­hreppi.

Að­gerðirnar eru gerðar í sam­ráði við sótt­varna­lækni og vísar Þór­ólfur til þess að bæjar­fé­lög hafi oft gripið til sam­bæri­legra að­gerða þegar hóp­smit kemur upp. Að sögn Þór­ólfs ætti það ekki að koma á ó­vart ef fleiri smit greinast í Skaga­firði í tengslum við málið.

Tveir af þeim sem hafa greinst í tengslum við hóp­smitið voru lagðir inn á spítala um helgina og eru þeir báðir á gjör­gæslu. Í heildina eru þrír inni­liggjandi á sjúkra­húsi vegna CO­VID-19 og eru þeir frá rúm­lega þrí­tugu upp í rúm­lega fimm­tugt.