Páll Matthías­son, for­stjóri Land­spítala, segist telja að þær að­gerðir sem eru nú í gildi hér á landi til að hefta út­breiðslu Co­vid-19 séu við­eig­andi til að vernda Land­spítala en þetta kom fram í máli Páls í há­degis­fréttum Bylgjunnar.

„Ég held að þetta séu við­eig­andi ráð­stafanir eins og þær eru settar upp, það er auð­vitað þannig að það hefur sem betur fer létt á hjá okkur, jafn­vel fyrr en við áttum von á, það er mjög mikil­vægt,“ sagði Páll í við­talinu en 10 eru nú inni­liggjandi á Land­spítala vegna Co­vid og enginn á gjör­gæslu.

Til umræðu að slaka á

Nú­verandi reglu­gerð kveður á um 200 manna sam­komu­bann, þó leyfa megi 500 manna sam­komur ef hrað­próf eru notuð, eins metra reglu, og grímu­skyldu. Reglu­gerðin er í gildi til og með 17. septem­ber en mögu­legt er að endur­skoða reglurnar fyrir þann tíma.

Í há­degis­fréttum var vísað til um­mæla dóms­mála­ráð­herra um að það væri á­stæða til að slaka á og að það yrði rætt í næstu viku. Svan­dís Svavars­dóttir heil­brigðis­ráð­herra sagði í við­tali að hún hafi enn sem komið er ekki fengið neitt minnis­blað um næstu að­gerðir en að þau myndu taka var­færin skref.

Þurfa að geta brugðist fljótt við

Páll segir þó að þrátt fyrir að staðan sé til­tölu­lega góð á Land­spítala séu þau enn á varð­bergi til að þau geti brugðist fljótt við ef önnur bylgja kemur upp.

„Við sjáum það líka að það sem er í gangi hérna í sam­fé­laginu það hefur á­hrif inn á spítalann, þannig við höfum verið að missa heilu deildirnar hjá okkur í sótt­kví sem auð­vitað truflar flæði og getu spítalans. Þannig að við erum á­fram á tánum, en þetta lítur vel út.“