Tiny Kox, forseti Evrópuráðsþingsins, segir mikilvægt að styrkja á ný og endurhugsa tilgang Evrópuráðsins. Ráðið var sett á stofn í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar og stendur nú á ákveðnum tímamótum. Með stofnun ráðsins hafi nýju kerfi verið komið á þar sem ríkin treystu á hvert annað og vernduðu hvert annað. Það kerfi snýst um marghliða samvinnu.

„Í þessu kerfi ætlar enginn að vera sterkari en hinn. Ísland er gott dæmi um land sem virkar vel í þessu fyrirkomulagi. Þið eruð ekki með neinn her en líður samt eins og þið séuð örugg og þið eruð það því restin af heiminum hefur lýst því yfir að þau ætli ekki að ráðast á ykkur,“ segir Kox og að hingað til hafi það virkað.

Á næsta ári fer fram leiðtogafundur Evrópuráðsins á Íslandi. Um er að ræða fyrsta leiðtogafund ráðsins í nærri 20 ár og segir Kox að þetta kerfi verði eitt af því sem verði á borðinu.

Kox segir að marghliða samvinna ríkja, eins og Evrópuráðið sé byggt á, hafi virkað í nærri 80 ár en að nú hafi Rússar ákveðið að þeim þyki það ekki virka lengur og hafi í kjölfarið ráðist inn í Úkraínu. Því þeir vilji ná sínu fram með öðrum leiðum.

Spurður hvort að hann telji líklegt að hægt verði að sannfæra Rússa aftur um að marghliða samstarf sé betra, segir Kox að hann telji að Rússar viti nú þegar að þeir muni ekki vinna þetta stríð.

Evrópuráðið lýsti því yfir í október í ályktun að ríkisstjórn Rússlands væri hryðjuverkaríkisstjórn. Kox segir þetta hafa verið mikilvægt skref og að þetta muni skipta miklu máli þegar Rússar verða dregnir fyrir dómstól vegna stríðsglæpa sinna í Úkraínu. Sama hvort það verði fyrir sérstakan dómstól eða dómstólinn í Haag.