Karl Gauti Hjaltason, fyrrverandi þingmaður Miðflokksins, hefur gert athugasemdir við málsatvikalýsingu undirbúningsnefndar kjörbréfanefndar um framkvæmd kosninganna í Norðvesturkjördæmi.

Hann segir enn margt óljóst með framkvæmd talningar í Norðvesturkjördæmi og telur langt því frá að öll kurl séu komin til grafar.

Á vef Alþingis má finna athugasemdir Karls Gauta en hann telur meðal annars óupplýst með öllu hvar atkvæðin tvö, sem bættust við atkvæðafjöldann síðdegis á sunnudeginum, voru og hvaðan þau komu.

Karl Gauti segir málsatvikalýsingu nefndarinnar leiða glögglega í ljós þá fjölmörgu annmarka sem voru á framkvæmd yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi eftir að hún gaf út lokatölur að morgni sunnudagsins 26. september síðastliðinn.

Athugasemdir Karls Gauta beinast að undirbúningsnefndinni og þeim atriðum sem honum þykir nefndin ekki hafa kannað og upplýst nægilega vel um. Meðal þess sem hann gagnrýnir er að enn hafi ekki verið leitt í ljós hver tók í raun og veru ákvörðunina um endurtalninguna.

„Í málsatvikalýsingunni rekst hver frásögnin á annars horn í þessu tilliti og er helst að skilja á framburði hluta kjörstjórnar að ákvörðunin hafi verið tekin af Landskjörstjórn. Varla getur Alþingi sætt sig við að svo mikilvæg ákvörðun sem varðar þingsæti fjölmargra þingmanna liggi óupplýst með öllu?,“ segir Karl Gauti í athugasemdum sínum.

Karl Gauti lætur ekki þar kyrrt við liggja og gerir athugasemdir við fleiri punkta líkt og það að yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis hafi ekki ritað fundargerð sína jafnóðum, „svo allar ákvarðanir séu skráðar um leið og þær eru teknar.“

Hann vísar til þess sem áður hefur komið fram að yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi ritaði sína fundargerð tveimur dögum síðar.

Þá gagnrýnir Karl Gauti verkaskiptingu yfirkjörstjórnar og segir að enn hafi nefndin ekki upplýst um það. Né sé vitað hvort frumrit gerðarbókar yfirkjörstjórnar í Norvesturkjördæmi sé í höndum nefndarinnar.

Karl Gauti segir nefndina þurfa að gera grein fyrir þeim upplýsingum.ásamt því að greina því því hvort að gerðarbókin sé undirrituð af yfirkjörstjórnarmönnum.

Einnig þurfi að varpa ljósi á það hvort aðrir meðlimir yfirkjörstjórnarinnar, en oddvitinn, hafi vitað af og samþykkt að kjörgögn yrðu geymd með þeim hætti sem raun bar vitni.

Í lok athugasemda sinna segir Karl Gauti að þau brot sem hafi átt sér stað við framkvæmd talningarinnar á sunnudeginum í Borgarnesi sem hann hafi tiltekið í kæru sinni til Alþingis hafi ekki einungis verið staðfest með rannsókn heldur hafi þeim einnig fjölgað.