Borið hefur á því að fyrirtæki hérlendis beini þeim tilmælum til starfsfólks sem kemur frá útlöndum að mæta ekki til vinnu nema að undangengnu Covid-prófi. Sérfræðingur í vinnurétti telur atvinnurekendum heimilt að krefjast þess af starfsfólki að það fari í skimun en annað gildi um bólusetningar.

Sesselía Birgisdóttir, forstöðumaður nýsköpunar og markaðsmála hjá Högum, segir öryggisdeild fyrirtækisins beina þeim tilmælum til starfsmanna fyrirtækja félagsins að fara í skimun eftir dvöl erlendis áður en þeir koma til vinnu af öryggisástæðum. Beri starfsmaður kostnað af skimuninni greiða Hagar hann.

„Atvinnurekandi hefur stjórnunarvald yfir starfsmönnum sínum, skipunarvald og þeim ber að hlýða,“ segir Lára V. Júlíusdóttir, hæstaréttarlögmaður og sérfræðingur í vinnurétti. „Það þarf að hafa í huga að þetta eru fordæmalausir tímar.“ Það kunni að vera ágætlega ígrunduð rök fyrir því að óska eftir því að starfsmenn fari í skimun.

„Í ljósi þess að atvinnurekandi getur óskað eftir því við starfsmann að hann verði heima til að byrja með eða heima eftir sumarfrí eða honum er sagt upp og hann þarf ekki að vinna uppsagnarfrest eða eitthvað því um líkt, hann ræður hvaða störfum starfsmaður sinnir og eins því hvort starfsmaður sinni einhverjum störfum yfirleitt. Ef atvinnurekandi segir að þú þurfir fyrst að fara í skimun, ef þetta tekur einhvern tíma eða einhver óþægindi hljótast af eða kostnaður eða eitthvað slíkt, þá þarf atvinnurekandi að standa straum af þeim kostnaði og greiða viðkomandi laun á þeim tíma sem þetta tekur,“ segir Lára.

Að hennar mati væri það erfitt fyrir starfsmann að halda því fram að með því að skikka sig í skimun sé atvinnurekandi að fara út fyrir valdsvið sitt. „Ég myndi halda að starfsmaður sem telur að atvinnurekandi fari þarna út fyrir valdsvið sitt að einhverju leyti, hann sé bara ekkert í mjög góðum málum. Atvinnurekandi geti óskað eftir þessu og fólk verði bara að sæta því enda sé þetta ekki langt út fyrir það sem skynsemi mælir með,“ segir hún.

Annað gildir að hennar sögn um að krefja starfsmann um bólusetningu. „Ég tel að bólusetning sé svo sterkt inngrip að atvinnurekandi geti ekki skyldað starfsmann til slíks gegn vilja starfsmannsins. Vinnuréttarskyldur geti ekki náð svo langt. Atvinnurekandi þarf hins vegar ekki að hafa óbólusettan mann í vinnu og getur sagt honum upp starfi,“ segir Lára.