Doktor í raddmeinafræðum telur að versnandi árangur íslenskra nemenda í PISA-könnuninni megi rekja að hluta til hávaða í kennslustofum.

Íslenskir nemendur fengu að meðaltali 474 stig fyrir lesskilning sem er um átta stigum minna en í könnuninni 2015. Aðeins sex OECD-ríki voru með marktækt færri stig að meðaltali en Ísland, fimm lönd fengu álíka mörg en 24 lönd voru með marktækt fleiri stig.

„Samkvæmt vísindalegum rannsóknum getur hávaði skaðað heyrn, dregið úr einbeitingu, skert athygli og valdið erfiðleikum með orðaminni,“ segir Valdís Ingibjörg Jónsdóttir raddmeinafræðingur. „Hávaði getur líka haft neikvæð áhrif á getu til að skilja mál, truflað meir málskilning barna en fullorðinna, dregið úr lesskilningi og valdið erfiðleikum við að mynda tengsl við félaga og kennara. Það dregur líka úr hæfni til að muna.“

Valdís vísar í vísindarannsóknir máli sínu til stuðnings, þar á meðal nýlega norræna rannsókn þar sem hún er meðal höfunda. Var þar niðurstaða rannsóknarinnar að börn hér á landi ættu mjög erfitt með að heyra í kennaranum.

Fram kemur í niðurstöðum PISA-könnunarinnar að hlutfallslega færri íslenskir kennarar telja sig hafa fengið undirbúning í náminu fyrir bekkjarstjórnun en á öðrum Norðurlöndum. Að mati kennara hér á landi fer meiri tími í agastjórnun borið saman við önnur Norðurlönd og minni tími í eiginlega kennslu. Um 40 prósent íslenskra kennara eru sammála þeim fullyrðingum að í upphafi kennslustundar þurfi að bíða áður en nemendur gefa hljóð samanborið við 26,9 prósent á hinum Norðurlöndunum.

Valdís segir börn eiga erfiðara með að vinna í hávaða en fullorðnir. „Við sjálf treystum okkur ekki til að vinna við þær aðstæður sem börn eru í þegar þau sitja í kennslustund. Á sama tíma eru þau viðkvæmari fyrir hávaða en fullorðnir af líffræðilegum ástæðum, hlust þeirra er styttri og heyrnarfæri þeirra ekki eins þroskuð og fullorðinna. Sama á við um málþroska, þau eiga erfiðara með að hlusta sér til skilnings,“ segir Valdís. „Það er ekki hægt að einblína bara á lestur, það þarf að tryggja að málfarslegar undirstöður séu í lagi.“

Telur hún að tækla þurfi vandamálið áður en börn fara í grunnskóla. „Það þarf fyrst og fremst að eiga sér stað vakning um skaðsemi hávaða. Svo þarf strax í leikskóla að ná hávaðanum niður. Þannig þarf að fækka börnum í hópi til að þau læri ekki að hávaði sé eina leiðin til að láta í sér heyra.“