Íslenska elektró-pönksveitin Hatari er stödd á Englandi um þessar mundir ásamt fjölda Íslendinga sem þar eru staddir vegna Evrópumeistaramóts kvenna í fótbolta. Hatari lék fyrir fullu húsi í Brighton í gærkvöldi og leikur í Manchester á föstudag.

„Ó, guð, ég vissi þetta ekki einu sinni,“ svarar Matthías Tryggvi Haraldsson, annar söngvara sveitarinnar, spurður um hvort meðlimir sveitarinnar ætli að skella sér á leik. „Ég veit ekki til þess að meðlimir Hatara hafi áhuga á fótbolta. En við óskum öllu fótboltaáhugafólki til hamingju með EM og óskum öllum frábæru fótboltakonunum árangurs í sínu fagi.“

Síðasta tónleikaferðalagi Hatara var slaufað í miðju kafi vegna heimsfaraldurs og sveitin hefur meira og minna verið í dvala síðan. Ný tónleikaferð Hatara hófst í lok júní og stendur fram eftir sumri. Þá gaf sveitin út nýtt lag á dögunum sem ber heitið Dansið eða deyið.