Hæsta­réttar­lög­maður efast um að fyrir­hugaðar sótt­varna­reglur um að krefja ís­lenska ríkis­borgara sem koma til Ís­lands um fram­vísun skír­teinis um nei­kvætt PCR-prófs vegna CO­VID-19 smits, standist 2. mgr., 66. greinar stjórnar­skrár Ís­lands. Þar segir: „Ís­lenskum ríkis­borgara verður ekki meinað að koma til landsins né verður honum vísað úr landi.“ Reglurnar eiga að taka gildi á föstudaginn.

Til­lögur Þór­ólfs Gunnars­sonar sótt­varna­læknis, sem Svan­dís Svavars­dóttir heil­brigðis­ráð­herra hefur að mestu fallist, á kemur fram að allir sem til landsins koma þurfi að fram­vísa nei­kvæðu PCR-prófi.

Arnar Þór Stefáns­son hæsta­réttar­lög­maður geldur var­hug við setningu reglna sem þessara vegna stjórnar­skrárvarinna réttinda ís­lenskra ríkis­borgara. Stjórnar­skráin veitir einungis ríkis­borgurum þessa vernd en ekki þeim sem hafa dvalar­leyfi hér. Hann tekur fram að í annarri máls­grein 66. greinar stjórnar­skrárinnar komi skýr­lega og for­taks­laust fram að ís­lenskum ríkis­borgurum verði ekki meinuð koma til landsins.

„Þessi regla er án undan­tekninga, sem þýðir það að skoða verður gaum­gæfi­lega hvort þær til­lögur sem nú hafa komið fram séu sam­rýman­legar þessu stjórnar­skrár­á­kvæði,“ segir Arnar Þór. Það sé farið að ganga nærri þessu á­kvæði stjórnar­skrárinnar að krefjast PCR-prófs að hans mati. Kanna þurfi til hlítar hvernig þessar nýju reglur sam­rýmast stjórnar­skrá landsins. Stjórnar­skráin njóti vafans.

Arnar Þór telur þó koma til á­lita að binda þessa reglu um nei­kvætt PCR-próf við aðra en ís­lenska ríkis­borgara. Þá séu önnur vægari úr­ræði fyrir hendi á grund­velli ný­sam­þykktra sótt­varnar­laga sem náð geta sama mark­miði. Hann telur mikil­vægt, sér­stak­lega fyrir ráð­herra, að tefla ekki á tvær hættur gagn­vart stjórnar­skránni, og minnir á lög um ráð­herra­á­byrgð í því sam­bandi.

Skimun gegn CO­VID-19 á Kefla­víkur­flug­velli.
Fréttablaðið/Valli

Þeir sem hingað koma þurfa að undir­gangast tvö­falda skimun, við komuna til landsins og dvelja í fimm daga sótt­kví, fara þá í aðra skimun og sé hún nei­kvæð þarf það ekki lengur að vera í sótt­kví. Arnar efast um þörfina á þriðja prófinu þegar fyrir liggja tvær skimanir, ekkert annað Evrópu­ríki sé með tvær skimanir auk þess að krefjast nei­kvæðs PCR-prófs.

„PCR plús tvær skimanir, þá ertu kominn í Evrópu­met,“ segir Arnar Þór.