Frumvarp forsætisráðherra um breytingar á ýmsum lögum um eignarráð og nýtingu jarða mætir nokkuð harðri andstöðu meðal landeigenda. Meðal markmiða frumvarpsins er að sporna gegn of mikilli samþjöppun í eignarhaldi lands og uppkaupum erlendra lögaðila á íslensku jarðnæði en undirbúningur frumvarpsins hófst um svipað leyti og breski auðmaðurinn Jim Ratcliffe jók enn við jarðeignir sínar hér í fyrra.

Í umsögnum um frumvarpið er því haldið fram að tiltekin ákvæði frumvarpsins fari í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar um eignarrétt, atvinnufrelsi og jafnræði. Með umsögn Veiðifélagsins Strengs í Vopnafirði, sem er að mestu í eigu Ratcliffes, fylgir ítarlegt lögfræðiálit Dr. Carls Baudenbacher, fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins, sem unnið var fyrir Streng vegna málsins. Í álitinu eru færð rök fyrir því að tiltekin ákvæði frumvarpsins fari í bága við ákvæði EES-samningsins.

Ákvæðið sem helst sætir gagnrýni varðar áskilnað um samþykki ráðherra fyrir aðilaskiptum að landi ef kaupandi eða aðilar honum tengdir eiga samanlagt 1.500 hektara lands fyrir. Gagnrýnt er hve opið og vítt vald ráðherra hefur til að samþykkja eða banna aðilaskiptin. En í álitsgerð Bauden­bachers fyrir Streng er sérstaklega fjallað um ákvæði þess efnis að ef kaupandi eða tengdir aðilar eigi samanlagt 10.000 hektara lands eða meira skuli ráðherra synja umsókn um aðilaskipti nema unnt sé að sýna fram á sérstaka þörf kaupanda fyrir meira landrými.

Í álitinu segir að þótt frumvarpið hafi í sjálfu sér lögmæt markmið, feli 10.000 hektara hámarkið í sér óréttlætanlega takmörkun á frjálsu flæði fjármagns og frelsi til atvinnurekstrar. Þá sé meðalhófs ekki gætt þar sem vægari úrræði virðist tiltæk, ákvæði frumvarpsins fari í bága við meginreglur um jafnræði fyrirsjáanleika laga.

„Það kemur mér ekki á óvart að þeir sem hafa verið að safna að sér jörðum leggist gegn takmörkunum á slíkri samþjöppun,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og bætir við: Ég vænti þess að sérfræðingar sem unnu málið fyrir mig muni bregðast við þessum athugasemdum.“