„Við hvetjum fólk til að hafa samband ef það telur sig þurfa á hjálp að halda í þessum málum,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendastofu, um fyrirspurnir vegna ferðalaga erlendis.

Margir tilvonandi ferðlangar telja stöðuna óvissa.

„Þetta er eitt af helstu verkefnum okkar þetta árið og í takti við það sem við sáum í fyrra. Það hafa margar ferðaskrifstofur staðið sig mjög vel, haft samband að fyrra bragði til að gengið sé rétt frá málinu og staðið við sitt en því miður eru inn á milli svartir sauðir sem eru ekki að standa við sitt. Ef fólk er ekki sátt við svör, tilboð eða afgreiðslu er hægt að hafa samband við okkur,“ segir Breki.

Að sögn Breka er í slíkum málum meðal annars litið til aðstöðunnar sem ríkti er fólk keypti ferðina.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Fréttablaðið/Ernir

„Ef einstaklingur kaupir flug í fyrramálið til Spánar á hann að geta gert ráð fyrir því að það sé ýmislegt sem verður sérkennilegt, en einstaklingar sem keyptu flug fyrr á þessu ári á svæði sem voru á þeim tíma græn á Sóttvarnakorti Evrópu, þar hafa forsendurnar breyst,“ segir Breki.

Fólk er að sögn Breka heilt yfir mjög meðvitað um rétt sinn. Á síðu Neytendsamtakanna sé grein þar sem vakin er athygli á því hvernig best sé að snúa sér í slíkum málum.

„Lögin eiga við ferðir sem innihalda að minnsta kosti tvær ferðatengdar þjónustur, svo sem flug og hótel, eða flug og viðburð en ekki einungis flugferðir,“ bendir Breki á.

Neytendasamtökin hafa reynt að minna fólk á að hafi það keypt pakkaferð eigi það rétt á endurgreiðslu, en að aðrar reglur gildi um flugferðir.

„Það er regluverk sem byggir á evrópskri reglugerð um pakkaferðir og samtengda ferðaþjónustu, þar sem einstaklingar geta afpantað gegn greiðslu ákveðinnar þóknunar sem búið er að semja um. Ferðaskrifstofurnar eiga hins vegar ekki rétt á þessari þóknun ef þetta er vegna óvenjulegra eða óviðráðanlegra aðstæðna og þá er komið að lykilspurningunni, hvernig er það túlkað?“ segir Breki.

Spurning sé um aðstæðurnar.

„Nú er heimsfaraldurinn búinn að geisa í eitt og hálft ár, teljast breytingar vegna sóttvarna­aðgerða orðnar eðlilegar? Það er kærunefnd sem úrskurðar í því, “ segir Breki og heldur áfram.

„Við vitum af málum sem eru að fara fyrir kærunefndina, einstaklingar í útskriftarferð sem telja sig eiga rétt á fullri endurgreiðslu án greiðslu þóknunar. Við teljum að þar séu óviðráðanlegar aðstæður en ferðaskrifstofan er ekki sammála.“