Ólafur Þ. Harðar­son, prófessor í stjórn­mála­fræði við Há­skóla Ís­lands, telur það afar ó­lík­legt að öll at­kvæði sem voru greidd í Al­þingis­kosningunum verði talin aftur alls staðar á landinu en endur­talning fór fram í gær í Norð­vestur­kjör­dæmi og stendur nú yfir í Suður­kjör­dæmi.

Í Kast­ljósinu á RÚV í kvöld fóru Ólafur og Tómas Hrafn Sveins­son, lög­maður og fyrr­verandi for­maður kjör­stjórnar í Reykja­vík, yfir málin. Að­spurðir um stöðuna sögðust þeir bæði ekki muna eftir öðru eins og því sem stendur nú yfir.

„Nei, ég man ekki eftir því. Ef þú ert að spyrja hvort ég hafi áður séð það að klukkan níu séu fimm jöfnunar­menn inni en klukkan eitt séu þeir farnir út og aðrir fimm komnir í staðinn, þá hef ég aldrei séð það áður,“ sagði Ólafur í svari sínu við spurningu þátta­stjórnandans Sig­ríðar Haga­lín. Hann segir að það myndi koma sér á ó­vart ef hið sama myndi gerast í Suður­kjör­dæmi.

Allt kerfið ónýtt vegna mannlegra mistaka

Líkt og áður segir stendur nú yfir endur­talning í Suður­kjör­dæmi en fimm flokkar fóru fram á að at­kvæðin yrðu talin aftur eftir að endur­talningu lauk í Norð­vestur­kjör­dæmi. Ólafur segir þó nánast engar líkur að talið verði aftur á landinu öllu þrátt fyrir að margir lands­menn hneykslist á stöðu mála.

„Ég hef verið að fylgjast með um­ræðunni í dag og hef nú svona orðið svo­lítið undrandi, það er eins og menn séu að tala um það að vegna þess að það hafi orðið mis­tök í einu kjör­dæmi, mann­leg mis­tök sem alltaf geta gert, þá sé bara kerfið í rúst og allt sé ó­nýtt,“ sagði Ólafur.

Hægt að gera athugasemdir við mikilvægari hluti

Að hans sögn er aðal­at­riðið í kosninga­kerfinu að vilji kjós­enda speglist með réttum hætti í full­trúum. Vísaði hann til þess að eftir­lits­menn ÖBE hafi áður fylgst með kosningum hér á landi, þó ekki þeim í ár, og komist að þeirri niður­stöðu að fram­kvæmd kosninga á Ís­landi sé með því besta sem gerist í heiminum. Þeir hafi þó vissu­lega gert at­huga­semdir við nokkra hluti.

„Þeir hafa gert at­huga­semd um hlut sem skiptir miklu meira máli heldur en til dæmis inn­sigli á kjör­kössum, þó þau skipti máli, þeir hafa gert at­huga­semdir við vægi at­kvæða í ís­lenska kosninga­kerfinu og Al­þingi hefur bara ekki hlustað á það,“ sagði Ólafur en hann sagði það vera mun mikil­vægari at­huga­semd en þá sem hefur verið gerð í ár.

Að lokum var Ólafur spurður út í þau til­felli þar sem kosningar voru ó­giltar hér á landi, einu sinni snemma á 20. öld á Seyðis­firði þar sem kosið var aftur ári seinna, og einu sinni á þessari öld þegar Hæsti­réttur ó­gilti kosningu til stjórn­laga­ráðs þar sem kært var fyrir ýmis tækni­at­riði í fram­kvæmdinni.

Að­spurður um hvort það væru ein­hverjar líkur á að Al­þingi myndi ó­gilda kosninguna í ár var svar Ólafs ein­falt. „Nei,“ sagði Ólafur stað­fast­lega.