Veiga Grétarsdóttir kajakræðari og náttúruverndarsinni tók eftirfarandi myndir sem birtust fyrst í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins þann 7. ágúst síðastliðinn. Myndirnar hafa vakið óhug og skapað umræður um dýravelferð í fiskeldi á Íslandi.

Fiskurinn er stórslasaður á fésinu.
Mynd: Veiga Grétarsdóttir
Einn fiskanna gæti verið með vetrarsár af völdum bakteríu að sögn Ragnars.
Mynd: Veiga Grétarsdóttir

Ragnar Jóhannsson, sviðsstjóri fiskeldis hjá Hafrannsóknastofnun, telur einn fiskanna vera með svokallað vetrarsár sem orsakast af bakteríu og annan vera stórslasaðan eftir einhverjar hremmingar. Sárin séu klárlega ekki eftir laxalús.

„Svona fiskar myndu aldrei lifa lengi í kví. Þetta er fiskur sem hefur lent í einhverjum svakalegum hremmingum. Mér finnst líklegt að hann hafi lent í einhverju þegar verið var að dæla upp úr kví í slátrun,“ segir Ragnar. Veltir hann fyrir sér hvort einn laxanna á myndskeiðinu sé fyrir utan kvína.

„Veiga stakk GoPro ofan í kvíarnar og þetta var það fyrsta sem blasti við.“

„Fyrsta sem blasti við“

Elvar Örn Friðriksson, framkvæmdastjóri Verndarsjóðs Villtra Laxastofna eða North Atlantic Salmon Fund (NASF), segir Veigu hafa tekið myndirnar með GoPro myndavél og að laxarnir séu allir ofan í kvíunum sjálfum en ekki fyrir utan.

„Myndirnar eru teknar annars vegar í Dýrafirði og hins vegar í Arnarfirði. Þetta eru allt myndskeið innan úr kvíunum. Veiga stakk GoPro ofan í kvíarnar og þetta var það fyrsta sem blasti við,“ segir Elvar í samtali við Fréttablaðið. Hann segir myndir frá alþjóðlegum náttúruverndarsinnum sýna fram að þetta vandamál sé viðvarandi alls staðar.

Segir gullgrafaraæðið hafa róast

Magn slátraðs eldisfisks hefur áttfaldast á síðustu tíu árum og var tæplega 40,6 þúsund tonn árið 2020 samkvæmt mælaborði fiskeldis sem finna má á vef Matvælastofnunar, eftirlitsaðila fiskeldis á Íslandi.

Á sérstöku málþingi um fiskeldi árið 2019 lýstu náttúruverndarsinnar yfir áhyggjum með fiskeldisiðnaðinn. Voru þátttakendur sammála um að nauðsynlegt væri að auka eftirlit með fiskeldi. Sannkölluð sprenging varð í fiskeldi árin 2018 og 2019 þegar fyrirtæki kepptust við að fá leyfi fyrir sjókvíum. „Það er gullgrafarastríð á Íslandi, menn keppast um að fá leyfi ókeypis vegna þess að þetta er söluvara,“ sagði Jón Þór Ólason, formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur, sem flutti erindi á téðu málþingi.

„Í rauninni var stjórnsýslan svolítið eftirá til að byrja með því þetta kom svo hratt.“

„Það var svolítið gullgrafaraæði,“ tekur Ragnar undir. „En þetta hefur róast aðeins,“ bætir hann við. Aðspurður hvort Íslendingar hafa náð utan um iðnaðinn og eftirlitið segir hann:

„Í rauninni var stjórnsýslan svolítið eftirá til að byrja með því þetta kom svo hratt. Menn voru að haska sér af stað og þá var mikið álag á MAST og fáir starfsmenn að halda utan um þetta. Stjórnsýslan og stofnanir hafa verið að ná vopnum sínum í þessum málum. Þetta er stór iðnaður sem er að stækka og það er ýmislegt sem getur komið upp. Við héldum fyrst að það gæti ekki komið upp lúsavandamál á Íslandi því það væri svo kalt. En lúsin vissi það ekki og fjölgaði sér samt,“ segir Ragnar en hann telur það gott að iðnaðurinn hafi byrjað seint á Íslandi og var því hægt að læra af Norðmönnum.

Gríðarlegur peningur

„Íslenskt fiskeldi er komið til að vera,“ segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á ársfundi Samtaka fyrirtækja í Sjávarútvegi í Hörpu í apríl 2019. Var þá ráðgert að um 45 þúsund tonn af eldislaxi yrðu framleidd á árinu 2021 en miðað við tölurnar í fyrra er það alls ekki ólíklegt.

Slík útflutningsverðmæti yrðu svipuð og samanlögð útflutningsverðmæti loðnu, kolmunna og makríls árið 2017.


Brought to you by

Þrír eldisfiskar veiddust í fyrra

Veiðimenn á Íslandi hafa lýst yfir áhyggjum með erfðablöndun meðal villtra laxa í nágrenni eldissvæða. Ragnar sagði á erindinu árið 2019 að vöktun og tilraunir á yfirstandandi ári og næstu árum myndu betur varpa ljósi á forsendur til endurskoðunar. Og þá er um að gera að spyrja hvað þessar vaktanir og tilraunir hafa leitt í ljós.

Aðspurður segir hann tiltölulega fáa fiska hafa strokið úr kvíum á Íslandi frá því að hann hélt erindi sitt. Stærsta atvikið hafi verið í febrúar 2018 en þá hafi um 12 þúsund til 13 þúsund fiskar strokið og veiddust þá um 20 til 30 eldisfiskar í ám á Íslandi.

Í fyrra fékk Hafrannsóknarstofnun tvo fiska úr ám og einn úr sjó til arfgerðargreiningar í fyrra sem veiðimenn töldu vera strokulaxa úr kvíum.

Ragnar segir gott eftirlit með magni lúsa í kvíum, til að mynda birtir Arnarlax vikulegar tölur yfir magn lúsa í eldislöxum.

„Fiskeldisfyrirtæki telja lýsnar og nota hrognkelsi til að éta lýs og halda þeim niðri. Ef hrognkelsin ráða ekki við lýsnar þá senda fyrirtæki inn beiðni til fisksjúkdómanefndar að fá að meðhöndla lúsina með lúsalyfi. En ef það er ofnotað gæti komið fram nýr lúsastofn sem þolir slíkt lyf.“