Ei­ríkur Berg­mann, prófessor í stjórn­mála­fræði við Bif­röst, ræddi ný­af­staðnar kosningar og kosninga­klúðrið í Norð­vestur­kjör­dæmi við Kristján Kristjáns­son á Sprengi­sandi í morgun. Vísir greinir frá.

Ei­ríkur telur ekki lík­legt að kosið verði aftur í Norð­vestur­kjör­dæmi þrátt fyrir kosninga­laga­brot.

„Mér hefur nú virst hingað til að lík­legasta niður­staðan hljóti að vera sú að út­gefin kjör­bréf verði stað­fest. Vegna þess að aðrar niður­stöður virðast ó­hugsandi. Það er auð­vitað galli við þá niður­stöðu sem er sá að þarna var aug­ljós­lega ekki farið að reglum en að það eigi að leiða til upp­kosningar í einu kjör­dæmi eins og lögin segja, það er svo skrýtin staða að vera í. Nánast ó­boð­leg,“ segir hann.

Þá segir Ei­ríkur að vand­ræði tengd kosningunum séu af­leiðing meiri­háttar hönnunar­galla í stjórnar­skránni sem hann segir að megi rekja til danska ein­veldisins á ní­tjándu öld.

„Al­þingi úr­skurðar sjálft um hvort það sé sjálft lög­lega kjörið eða ekki. Þetta er náttúru­lega fá­rán­legt,“ segir hann. Á­stæðan fyrir því sé að menn hafi viljað koma í veg fyrir að konungurinn hefði á­hrif á annað ríkis­vald í Dan­mörku forðum. Úr­skurðar­valdið þyrfti að vera hjá ó­hlut­drægum dóm­stól en svo er ekki í þessu kerfi,“ segir hann.

Mikil­vægt að þing sé kallað saman sem fyrst

Ei­ríkur segir ríkis­stjórnina sem nú situr ekki vera svo­kallaða starfs­stjórn þó þing hafi ekki enn verið kallað saman.

„Ríkis­stjórnin hélt völdum þannig að for­sætis­ráð­herra hefur ekki beðist lausnar, þetta er ekki starfs­stjórn. Það er mikill munur á þessu á­standi sem er núna og oft áður eftir kosningar af þessum sökum. Við erum ekki að bíða eftir að ný ríkis­stjórn verði mynduð, auð­vitað kemur alltaf ný ríkis­stjórn, en hún hélt velli og getur ein­fald­lega bara haldið á­fram þangað til annað kemur í ljós,“ segir hann.

Hins vegar sé mikil­vægt að þing sé kallað saman og fjár­lög sam­þykkt sem fyrst. Til þess þurfi að leysa úr flækjunni í Norð­vestur­kjör­dæmi.

Eitt­hvað mis­jafnt í gangi

Að­spurður um hvort að líkurnar á því að ráðist verði í upp­kosningu aukist eftir því sem málið dregst á langinn sagði Ei­ríkur:

„Ef að niður­staðan er að fara í upp­kosningu þá væri betra að gera það fyrr heldur en síðar. Þannig að ég sé ekki að tímafaktorinn segi okkur neitt um þetta. Hann segir okkur hins vegar það að málið er kannski ekki alveg klippt og skorið. Það er eitt­hvað mis­jafnt í gangi. Það er reyndar ekki komin fram nein á­sökun um neitt til­tekið svindl og það er náttúr­lega kannski lykil­at­riði í þessu máli.“

Hlusta má á við­talið við Ei­rík í heild sinni á vef Vísis.