Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Bifröst, ræddi nýafstaðnar kosningar og kosningaklúðrið í Norðvesturkjördæmi við Kristján Kristjánsson á Sprengisandi í morgun. Vísir greinir frá.
Eiríkur telur ekki líklegt að kosið verði aftur í Norðvesturkjördæmi þrátt fyrir kosningalagabrot.
„Mér hefur nú virst hingað til að líklegasta niðurstaðan hljóti að vera sú að útgefin kjörbréf verði staðfest. Vegna þess að aðrar niðurstöður virðast óhugsandi. Það er auðvitað galli við þá niðurstöðu sem er sá að þarna var augljóslega ekki farið að reglum en að það eigi að leiða til uppkosningar í einu kjördæmi eins og lögin segja, það er svo skrýtin staða að vera í. Nánast óboðleg,“ segir hann.
Þá segir Eiríkur að vandræði tengd kosningunum séu afleiðing meiriháttar hönnunargalla í stjórnarskránni sem hann segir að megi rekja til danska einveldisins á nítjándu öld.
„Alþingi úrskurðar sjálft um hvort það sé sjálft löglega kjörið eða ekki. Þetta er náttúrulega fáránlegt,“ segir hann. Ástæðan fyrir því sé að menn hafi viljað koma í veg fyrir að konungurinn hefði áhrif á annað ríkisvald í Danmörku forðum. Úrskurðarvaldið þyrfti að vera hjá óhlutdrægum dómstól en svo er ekki í þessu kerfi,“ segir hann.
Mikilvægt að þing sé kallað saman sem fyrst
Eiríkur segir ríkisstjórnina sem nú situr ekki vera svokallaða starfsstjórn þó þing hafi ekki enn verið kallað saman.
„Ríkisstjórnin hélt völdum þannig að forsætisráðherra hefur ekki beðist lausnar, þetta er ekki starfsstjórn. Það er mikill munur á þessu ástandi sem er núna og oft áður eftir kosningar af þessum sökum. Við erum ekki að bíða eftir að ný ríkisstjórn verði mynduð, auðvitað kemur alltaf ný ríkisstjórn, en hún hélt velli og getur einfaldlega bara haldið áfram þangað til annað kemur í ljós,“ segir hann.
Hins vegar sé mikilvægt að þing sé kallað saman og fjárlög samþykkt sem fyrst. Til þess þurfi að leysa úr flækjunni í Norðvesturkjördæmi.
Eitthvað misjafnt í gangi
Aðspurður um hvort að líkurnar á því að ráðist verði í uppkosningu aukist eftir því sem málið dregst á langinn sagði Eiríkur:
„Ef að niðurstaðan er að fara í uppkosningu þá væri betra að gera það fyrr heldur en síðar. Þannig að ég sé ekki að tímafaktorinn segi okkur neitt um þetta. Hann segir okkur hins vegar það að málið er kannski ekki alveg klippt og skorið. Það er eitthvað misjafnt í gangi. Það er reyndar ekki komin fram nein ásökun um neitt tiltekið svindl og það er náttúrlega kannski lykilatriði í þessu máli.“
Hlusta má á viðtalið við Eirík í heild sinni á vef Vísis.