Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Halla Bergþóra Björnsdóttir, telur að dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, hafi ekki haft afskipti af rannsókn sakamáls í símtölum þeirra á milli á aðfangadag eftir að greint var frá því að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hafði verið í samkvæmi í Ásmundarsal á Þorláksmessu.
Jón Þór Ólafsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis er sakaður um trúnaðarbrest.Frá þessu var greint í kvöldfréttum á RÚV í kvöld.
Þar kom fram að Jón Þór Ólafsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis greindi frá því í kvöldfréttum í gær að það hefðu nýjar upplýsingar komið fram á fundi nefndarinnar þegar lögreglustjóri kom fyrir nefndina og að upplýsingarnar gæfu tilefni til að skoða málið betur.
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði við mbl.is í dag að formaðurinn hefði með því að tjá sig um málið gerst sekur um trúnaðarbrest því ekki mega ræða það sem fram komi á fundum nefndarinnar.
Halla Bergþóra sendi fréttastofu RÚV póst í dag þar sem hún sagði símtöl Áslaugar Örnu hafa snúið að upplýsingagjöf lögregluembættisins á aðfangadag og hvernig að henni var staðið þennan dag og engu öðru og að beiðni Áslaugar hafi fallið undir lög og sagði að hún hefði ekki haft afskipti af rannsókn sakamáls hjá embættinu.