Sig­ríður Á. Ander­sen telur að staða sín sé ó­breytt þrátt fyrir ný­fallinn dóm Mann­réttinda­dóm­stóls Evrópu (MDE). Segir að farið verði yfir dóminn og að það komi til greina að skjóta niður­stöðunni til yfir­dóms MDE. 

Í við­tali í há­degis­fréttum Bylgjunnar sagði Sig­ríður að niður­staðan væri ó­vænt. Vísaði hún til þess að dómurinn hafi verið klofinn, fimm dómarar gegn tveimur, og að niður­staðan hafi falið í sér af­stöðu til þess að máls­með­ferðin við skipan dómara við Lands­rétt hafi verið gölluð. Þar sé ekki einungis henni um að kenna en í dómnum er á­kvörðun Al­þingis að kjósa um öll dómara­efnin í einu, en ekki í sitthvoru lagi, gagn­rýnd. 

Verið sé að skoða „vand­lega og al­var­lega“ að skjóta niður­stöðunni til yfir­dóms MDE. Ríkið hafi þrjá mánuði til að taka á­kvörðun um það. Sig­ríður sagði að af­staða ís­lenskra dóm­stóla lægi „skýr fyrir“ og vísaði þar til þess að Lands­réttur og Hæsti­réttur hafi hafnað kröfunni um van­hæfi Arn­fríðar Einars­dóttur sem Sig­ríður skipaði sem dómara þvert á mat hæfnis­nefndar. 

Hún telur sig hafa breiðan stuðning ríkis­stjórnarinnar til á­fram­haldandi setu sem dóms­mála­ráð­herra og telur niður­stöðuna ekki til­efni til af­sagnar. „Frá mínum bæjar­dyrum séð er það ó­breytt,“ sagði Sig­ríður að­spurð um pólitíska stöðu sína.