Guðmundur Björgvin Helgason Ríkisendurskoðandi kom fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á opnum fundi í dag þar sem rædd var skýrsla hans um sölu ríkisins á hlut sínum í Íslandsbanka.

Var þar farið yfir einstaka þætti skýrslunnar en einnig gafst Ríkisendurskoðanda tækifæri á að tjá sig um þær athugasemdir sem Bankasýsla ríkisins hafði gert bæði við framsetningu og niðurstöður hennar en Ríkisendurskoðandi telur að Bankasýslan hafi í vissum þáttum gagnrýni sinnar talað gegn betri vitund.

„Það verða til skýringar og það verða til eftir skýringar. Það verða ljós og svo villuljós og því mikilvægt að halda sig við staðreyndir málsins,“ sagði Ríkisendurskoðandi en hann hóf mál sitt á því að segja að þrátt fyrir þær athugasemdir sem Bankasýsla ríkisins hefði gefið út um skýrsluna stæði skýrslan óhögguð og að hann sæi ekki ástæðu til þess að endurskoða hana frekar.

Bankasýslan gaf út greinargerð þann 16. nóvember þar sem gerðar voru verulegar athugasemdir við skýrsluna sjálfa og var hún talin af hálfu Bankasýslunnar til marks um takmarkaða þekkingu Ríkisendurskoðanda á málinu.

Ríkisendurskoðandi gagnrýndi þá afstöðu Bankasýslunnar og það sem hann kallaði aðdróttanir stofnunarinnar „Við höfum þurft að sitja undir aðdráttunum Bankasýslu og tiltekinna fjölmiðla. Ég tel ástæðu til að tryggja að mitt starfsfólk hafi starfsfrið,“ sagði Ríkisendurskoðandi og tók meðal annars fram að einn ráðgjafi Ríkisendurskoðanda, dr. Hersir Sigurgeirsson, hefði sagt starfi sínu lausu vegna ásakana Bankasýslunnar um atferli hans á samfélagsmiðlum.

„Eins og að fara með rangt barn heim“

Ríkisendurskoðandi fór þá ítarlega yfir það sem kallað hefur verið Excel klúðrið en það lýsir sér í excel-skjali sem Bankasýslan sendi á Ríkisendurskoðanda sem innihélt upplýsingar um stöðu tilboðsbókarinnar og innihélt því mikilvægar upplýsingar um þá eftirspurn sem myndast hafði eftir hlutum í bankanum.

„Það sem skiptir máli er að við báðum Bankasýsluna aldrei um tilboðabókina á tilteknum tíma heldur báðum við sýsluna og fjármálaeftirlitið um hana þegar ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð var tekin,“ sagði Ríkisendurskoðandi en þær upplýsingar áttu þannig að endurspegla lokaákvörðun varðandi tilboðsbókina

Ríkisendurskoðandi tók það einnig fram að hann teldi að Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins hefði talað gegn betri vitund þegar hann tjáði sig um þetta mál þegar hann fundaði með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd nú fyrir helgi.

Það kom einnig fram í framburði Ríkisendurskoðanda að skjalið var sent frá Íslandsbanka á Bankasýsluna en hann tók frama að þá hefði skjalið borið annað heiti en það sem svo var sent á ríkisendurskoðanda. Bankasýslan hafi síðar meir breytt nafninu á skjalinu þegar það var sent áfram á Ríkisendurskoðanda.

„Þið afsakið samlíkinguna,“ sagði Ríkisendurskoðandi. „En þetta er bara eins og að fara með rangt barn heim af róló og halda síðan áfram að kynna það fyrir fjölskyldu og vinum sem sitt eigið. Þetta er bara alvarlegt mál. Ég veit ekki hvað vakir fyrir Bankasýslunni þegar hún gerir þetta.“

Ríkisendurskoðandi telur að þetta athæfi Bankasýslunnar hafi alls ekki verið við hæfi og hafi eingöngu verið til þess fallið að skapa upplýsingaóreiðu og afvegaleiða umræðu á Alþingi um málið.

„Það sem á endanum skýrir þetta og rökstyður af hverju ályktun okkar er með þessum hætti er að þegar Bankasýslan sendir ráðherra rökstutt mat klukkan 21:40, eftir að sölunni er lokið, búið er að loka tilboðabókinni þá segir Bankasýslan ráðherra að það hafi borist tilboð frá 150-200 aðilum. Nei það er ekki rétt, það voru tilboð frá 209 aðilum. Það hafa borist tilboð upp á rúmlega 100 milljarða króna. Nei það er ekki rétt heldur, því það bárust tilboð upp á 144,8 milljarða króna. Þannig að það er hafið yfir allan vafa að Bankasýslan hafði ekki fullnægandi yfirsýn,“ Sagði Ríkisendurskoðandi.

Þórhildur Sunnar Ævarsdóttir spurði hvort ekki væri fótur fyrir því að aðilar í málinu skoðuðu hæfi sitt að eigin frumkvæði.
Fréttablaðið/ERNIR

Augnablik tilkynningarskyldu kom aldrei

Annað sem margir af nefndarmönnum spurðu um var hvort á einhverjum tímapunkti það hefði verið nauðsynlegt að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra skoðaði sitt eigið hæfi við samþykkt á þeim tilboðum sem gerð voru í bankanna.

Ríkisendurskoðandi taldi að aldrei hafi raunverulega komið fram aðstæður þar sem ráðherra hefði þurft að ráðast í slíkt mat.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata spurði meðal annars um málið og spurði hvort ekki þurfi að hafa eigið frumkvæði við mat á hæfi í einhverjum tilfellum og átti þá eflaust við að fjármálaráðherra og aðrir sem tengdust sölunni hefðu mögulega átt að setja spurningarmerki um eigið hæfi á ákveðnum tímapunktum í ferlinu.

„Það sem ég held að skipti máli í þessu er að það var út frá markaðsgreiningum daginn fyrir söluna sem menn mynduðu sér skoðun um það hvar þessi sala myndi lenda. Þar á ég bæði við um verð og hið margumrædda frávik sem tengist afslætti. Það er okkar skoðun að þó að ráðherra hafi fengið ónákvæmar upplýsingar og það ónákvæmar að hann óskaði eftir ítarlegri upplýsingum og fékk. Þær upplýsingar voru þess eðlis að hann hafði að okkar mati ekkert tilefni til þess að véfengja að þarna væri sala sem væri ekki að uppfylla þau markmið sem hann hafði sett fyrirfram. Því kviknar ekki það augnablik þar sem ráðherra þarf að íhuga tilkynningarskildu og rannsóknarskildu,“ sagði Ríkisendurskoðandi.

Leiðrétting: Sagt var í fréttinni að starfsmaður Ríkisendurskoðanda hefði sagt starfi sínu lausu en um utanaðkomandi ráðgjafa var að ræða, dr Hersir Sigurgeirsson.