Íslandsdeild Transparency International lýsir vonbrigðum með brotalöm og möguleg lögbrot við talningu atkvæða í Alþingiskosningum á Íslandi.

Fulltrúar Íslandsdeildar sendu frá sér í ályktun í dag um mikilvægi þess að almenningur geti treyst lýðræðislegum kosningum. Áhyggjur kjósenda af framkvæmd kosninganna byggist hvorki á samsæriskenningum né óþarfa upphlaupi heldur efnislegum staðreyndum.

„Ljóst er að gáleysisleg og ólögmæt meðferð kjörgagna við talningu í Norðvesturkjördæmi getur ein og sér verið ástæða til að krefjast endurtekningar kosninganna þar,“

Lýstu þeir sérstökum áhyggjum af viðbrögðum Inga Tryggvasonar, formanns yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, eftir að ljóst varð að lögum um framkvæmd talningar var ekki fylgt.

„Formaðurinn hefur ítrekað gert lítið úr málinu í fjölmiðlum og gefið til kynna opinberlega að hann telji skoðanir sínar og ákvarðanir ekki þurfa að byggja á lögum. Ljóst er að gáleysisleg og ólögmæt meðferð kjörgagna við talningu í Norðvesturkjördæmi getur ein og sér verið ástæða til að krefjast endurtekningar kosninganna þar,“ segir í ályktuninni.

Atburðarásina síðustu daga hafi varpað ljósi á þá sérkennilegu og fráleitu málsmeðferð að nýkjörið Alþingi hafi endanlegt úrskurðarvald um réttmæti kosninganna. Telur Íslandsdeildin að slíkt geti leitt til geðþóttaákvarðana þingmanna sem eigi hagsmuna að gæta.

Fer í bága við MDE

Líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær fer ákvæði stjórnarskrárinnar um að Alþingi skeri sjálft úr um hvort þingmenn þess séu löglega kosnir, í bága við Mannréttindasáttmála Evrópu ef marka má dóm sem yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) kvað upp í belgísku máli í fyrra.

Í einróma niðurstöðu komst yfirdeild MDE að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið í bága við réttindi kærandans samkvæmt bæði 3. grein, 1. viðauka, og 13. grein samningsins. Belgíska þingið væri ekki nægilega hlutlaust, reglur um úrskurðarvald þess hvorki nægilega afmarkaðar né nákvæmar og tryggðu kærandanum ekki málsmeðferð sem veitti honum vernd gegn gerræðislegum, spilltum eða löglausum úrskurði þingsins.

Tranparency International á Íslandi tekur undir sjónarmið um að þessu fyrirkomulagi verði að breyta svo fljótt sem auðið verður. „Þótt ekki hafi komið fram rökstuddur grunur um kosningasvindl vill Íslandsdeild TI taka fram að brotalöm við framkvæmd kosninga og talningu er næg ástæða fyrir vanþóknun kjósenda og áhyggjum þeirra af því að ekki sé betur að verki staðið.“