Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að rannsókn lögreglu á manndrápinu í Rauðagerði miði vel miðað við umfang málsins. Hann segir að almenningur þurfi ekki að óttast og að ef svo væri myndi lögreglan alltaf grípa til viðeigandi ráðstafana.

„Þetta er mjög stór og umfangsmikil rannsókn sem að við erum með og það gefur skýringu á því af hverju það er ekki hægt að segja til um einstök tilvik, vegna rannsóknarhagsmuna,“ segir Margeir í samtali við Fréttablaðið.

Er þetta ein stærsta rannsóknin af þessu tagi?

„Já, í seinni tíð,“ segir Margeir.

Alls eru átta í haldi lögreglu vegna málsins. Fjórir hafa fyrr í vikunni verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Auk þess voru fjórir handteknir í gær. Gerð verður krafa um gæsluvarðhald yfir þremur af fjórum sem voru handteknir í gær en ekki hefur verið tekin ákvörðun um þann fjórða að sögn Margeirs. Mennirnir verða leiddir fyrir dómara í kvöld.

Margeir vill lítið gefa út um rannsókn málsins og aðdraganda manndrápsins eða aðstæður á vettvangi vegna rannsóknarhagsmuna. Hann segir að lögreglan að sé skoða þessa aðila og aðild þeirra að manndrápinu. Allir eru í haldi vegna rannsóknarhagsmuna.

Maðurinn var myrtur fyrir utan heimili sitt.
Fréttablaðið/Valli

Óttast ekki andúð eða ofbeldi í garð útlendinga

Greint hefur verið frá því að Alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra aðstoði við rannsóknina auk Europol. Að sögn Margeirs er sú aðstoð að mestu fólgin í upplýsingaöflun.

„Það er ekkert komið frá þeim," segir hann.

Maðurinn sem var ráðinn bani og fjöldi grunaðra eru af erlendum uppruna eins og frá hefur verið greint. Spurður hvort hann hafi áhyggjur af því að málið leiði af sér andúð í garð útlendinga og jafnvel ofbeldi í þeirra garð segir Margeir að hann telji ekki mikla hættu á því.

„Yfir höfuð eru Íslendingar skynsamari en að fara út í eitthvað svoleiðis. En þetta eru erlendir aðilar og einn Íslendingur,“ segir Margeir.

Eru þessir erlendu aðilar búsettir hér á landi?

„Bæði.“

Alls eru nú fjórir í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Fjórir auk þeirra verða leiddir fyrir dómara í kvöld.
Fréttablaðið/Stefán

Skoða hvort um sé að ræða einstakt tilvik vegna uppgjörs

Spurður um aukna hörku í undirheimum og hvort um sé að ræða einstakt tilvik tengt því að um sé að ræða uppgjör í undirheimum segir Margeir að það sé eitt af því sem að lögreglan er að skoða.

„Hvort þetta sé stakt tilvik tveggja einstakling í deilum eða hvað það er. En við erum að skoða alla þætti sem koma til greina. Eins og áður hefur komið fram þá óttumst við að harka muni aukast í þessum hópum og þetta er skýrt dæmi þess ef að það er þannig. Heilt yfir höfum við komið því á framfæri og ég vísa, enn og aftur, til skýrslu greiningardeildar Ríkislögreglustjóra um málið,“ segir Margeir.

En þarf almenningur að vera hræddur?

„Nei, við teljum það ekki vera. Ef við teljum einhverja hættu stafa af svona hópum gagnvart almenningi þá myndi lögreglan alltaf grípa til viðeigandi ráðstafana. Við förum aldrei að láta það viðgangast án þess að grípa inn í. Þá værum við ekki að sinna okkar starfi,“ segir Margeir.

En ert þú hræddur?

„Nei, nei, ekkert svoleiðis“ segir Margeir.

Alltaf einhver sem tekur við

Hann gefur ekkert upp um næstu skref rannsóknar málsins en segir að lögreglan sé að reyna að átta sig á umfangi og aðkomu hvers og eins að málinu.

Nú hefur verið talað um að um sé að ræða uppgjör í undirheimum og að einn taki við af öðrum. En er ekki alltaf einhver sem tekur við?

„Jú, það hefur verið þannig. Þetta er það sem gengur og gerist í þessu. Það þarf alltaf einhver að vera efstur. Þetta er endalaus barátta,“ segir Margeir að lokum.

Það þarf alltaf einhver að vera efstur. Þetta er endalaus barátta

Átta handteknir

Alls hafa átta einstaklingar verið handteknir í tengslum við málið. Fyrst var einn handtekinn á sunnudag í Garðabæ. Þá voru þrír handteknir í aðgerðum lögreglunnar á Suðurlandi í gærmorgun og svo voru fjórir til viðbótar handteknir. Sá fyrsti er í gæsluvarðhaldi þar til á föstudag, næstu þrír til næsta þriðjudags og svo kemur í ljós í kvöld hvort þeir fjórir sem voru síðast handteknir verði einnig úrskurðaðir í gæsluvarðhald.