Magnús Geir Þórðar­son, ný­ráðinn Þjóð­leik­hús­stjóri, segist telja það að mörgu leyti æski­legt fyrir þjónustu ríkis­út­varpsins að það sé tekið af aug­lýsinga­markaði. Þetta kom fram í nýjasta þættinum af Manna­máli sem sýndur var á Hring­braut í gær.

Þar spurði þátta­stjórnandinn Sig­mundur Ernir Rúnars­son fyrr­verandi út­varps­stjórann út í af­stöðu hans til stöðu RÚV á aug­lýsinga­markaði, sem löngum hefur þótt um­deild.

„Ég tel að ríkis­út­varpið sé gríðar­lega mikil­vægt ís­lenskri þjóð, ís­lenskri menningu og ís­lenskri tungu, ekki síst núna þegar það er of­gnótt af er­lendu af­þreyingar­efni sem flæðir yfir okkur. Þannig það verður að standa vörð um þjónustu RÚV eins og þjóðin vill,“ segir Magnús.

„Hvort að RÚV sé á aug­lýsinga­markaði eða ekki er önnur spurning. Að mörgu leyti tel ég að það væri og hef alltaf talið, það vera æski­legt fyrir þjónustu RÚV að vera ekki á aug­lýsinga­markaði. Að því gefnu að það væri bætt upp með hækkuðu út­varps­gjaldi til þess að RÚV geti staðið undir þjónustunni.“

Hann segist skilja þau sjónar­mið sem margir hafi bent á, um að margir vilji að RÚV sé á aug­lýsinga­markaði. „Þjóðin lítur á þetta að mörgu leyti sem þjónustu, að fá upp­lýsingar um hvað sé í boði, fyrir­tækin vilja koma upp­lýsingum á fram­færi, að mörgu leyti er þetta mikil­vægt fyrir fram­leiðslu­fyrir­tæki og þess háttar. En þetta er svona pólitísk spurning, hvernig RÚV er fjár­magnað og fyrst og fremst það sem pólitíkusarnir eiga að fjalla um.“