Skotvellir hafa verið starfræktir á Álfsnesi í vel á annan áratug á vegum Skotfélags Reykjavíkur og félagsins Skotreyn og segir Guðmundur að hávaðinn frá þeim hafi valdið íbúum á Kjalarnesi miklum óþægindum, enda hafi topparnir mælst langt yfir heilsuspillandi mörkum, að því er lesa má af tölum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. „Samt er ekkert gert, árum saman,“ segir hann, þótt svo „ekki liggi einu sinni fyrir samþykkt deiliskipulag um not skotfélaganna af svæðinu.“

Hvergi sé hins vegar minnst á blýmengun í sjónum og fjörunni við Álfsnes í skýrslu eftirlitsins, hvað þá hvernig eigi að fjarlægja alla þá blýmengun sem þar hafi orðið á síðustu árum, en út frá skýrslum skotfélaganna megi áætla að minnst 40 tonn af blýi liggi í og við fjöruna á Álfsnesi, en líklega miklu meira, „hátt í 100 tonn er jafnvel líklegra,“ heldur Guðmundur fram.

Hann segir Evrópusambandið áætla að um ein milljón fugla drepist ár hvert af blýeitrun þegar þeir ruglast á blýhöglum og litlum steinum sem þeir borða til að laga meltinguna, en dauðdaginn af völdum blýsins sé talinn afar kvalafullur.

„Svo bera skotmennirnir í bætifláka og segjast aðallega nota stálhögl, en það er rangt. Skýrsla heilbrigðiseftirlitsins sýnir hlutfall stálhagla vera 53 prósent á móti 47 prósentum blýhagla en þau síðarnefndu eru, vel að merkja, bönnuð í náttúrunni.“

Guðmundur segir þessa mengunarstefnu og dýraníð í boði borgarinnar vera henni til skammar. Hvergi á öðrum Norðurlöndum séu skotsvæði leyfð við votlendi vegna dýraverndarsjónarmiða. Hér heima óttist menn aftur á móti að missa atkvæði á kosningaári, verði hróflað við skotvöllunum.

Ekki bæti heldur úr skák að löggan noti skotsvæðin til æfinga, svo að landeigendur eigi sér öfluga mótherja í málinu, gráa fyrir járnum.

Blýhöglin bönnuð

„Við höfum bannað notkun blýhagla frá og með nýliðnum áramótum,“ segir Guðmundur Kr. Gíslason, framkvæmdastjóri Skotfélags Reykjavíkur. Spurður um staðsetningu skotvallanna svo nálægt íbúðabyggð segir hann skotmenn vilja vera í sátt við nágranna sína. „Það eru til ákjósanlegri svæði fyrir þetta.“