„Í Kópavogi var Kársnesskóli rifinn vegna myglu og rakaskemmda. Ég tel að það þurfi að gera hið sama í tilfelli Fossvogsskóla,“ segir Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, um húsnæði Fossvogsskóla. Umfangsmiklar framkvæmdir hafa verið í skólanum síðasta ár, nú síðast í sumar, til að uppræta myglu.

Í sumar fóru fram framkvæmdir við húsnæði skólans sem áttu að tryggja að loftgæði þar væru heilnæm. Hluta skólans var lokað tímabundið í fyrra vegna myglu og ráðist var í framkvæmdir upp á tæpan hálfan milljarð króna. Eftir að framkvæmdunum lauk stigu foreldrar barna fram sem fundu áfram fyrir einkennum.

Framkvæmdum lauk í byrjun ágúst og barst lokaúttekt frá verkfræðistofunni Verkís 17. ágúst. Er nú beðið eftir lokaúttektarskýrslu.

Leggst þungt á sálina

Jónína Sigurðardóttir segir að dóttir hennar finni fyrir einkennum í húsnæðinu nú í haust.

„Eftir að skólinn byrjaði aftur hefur dóttir mín fengið rosaleg höfuðverkjaköst. Síðasta miðvikudag leið yfir hana. Ég veit að það eru fleiri börn sem hafa fundið fyrir einkennum, til dæmis óútskýrð útbrot og fleira,“ segir Jónína.

„Það er búið að útiloka allt annað en húsnæðið. Hún er búin að fara til tannréttingasérfræðings, augnlæknis, sálfræðings, sjúkraþjálfara og fara í taugapróf. Einkennin hverfa alltaf þegar hún er ekki í skólanum,“ segir Jónína. „Það snýst ekki um námið eða álag, það hefur aldrei verið jafn mikið álag á henni og í samkomubanninu, þá voru engin einkenni. Ég vildi óska þess að þetta væri eitthvað annað en húsnæðið.“

Jónína segir að dóttir hennar finni fyrir einkennum víða, til dæmis í verslunum. „Ég hef miklar áhyggjur af heilsu hennar til framtíðar,“ segir Jónína.

„Þetta tekur rosalega á mann sem foreldri, mér ber lagaleg skylda til að senda hana í umhverfi sem er heilsuspillandi fyrir hana. Það leggst mjög þungt á sálina.“

Jónína segir að illa hafi gengið að fá svör frá skólanum. „Það vill enginn svara hvað var gert eða neitt í þá veruna.“

Skiptir máli hvernig mygla fannst

Valgerður lagði inn fyrirspurn til skóla- og frístundaráðs í síðari hluta ágúst um hvort mygla sem fannst við skoðun á húsnæði skólans í sumar hefði verið send til greiningar. „Það finnst alls staðar mygla. Ef það kemur fram í skýrslunni þá er það eins og við var að búast. Ég vil fá að vita hvernig mygla fannst, það er það sem skiptir máli,“ segir Valgerður. „Ef þau sýni sem voru tekin voru ekki send til greiningar til Náttúrufræðistofnunar Íslands, líkt og gert var fyrst þegar myglan fannst, þá finnst mér það verulega ámælisvert.“

Valgerður segir það vekja furðu að niðurstöðurnar hafi ekki legið fyrir þegar skólastarfið hófst í ágúst. „Eftir því sem ég hef heyrt þá komu niðurstöður úr rannsóknum um miðjan júní. Ég kallaði eftir þeim um miðjan ágúst og hef ekki fengið þær ennþá,“ segir hún.

Telur að nýtt húsnæði sé lausnin

„Tveimur dögum eftir að börnin byrjuðu í skólanum var aftur farið á stúfana og aftur farið að leita. Þá fannst mygla inni á salerni þrátt fyrir allar þær endurbætur sem var búið að ráðast í,“ segir Valgerður. „Ég get ekki metið það öðruvísi en að þetta húsnæði sé ónýtt og þurfi að rífa. Ég held að við náum aldrei öðruvísi að koma í veg fyrir þetta.“

Telur hún nýtt húsnæði vera lausnina. „Ég hef heyrt það frá verkfræðingum að það hafi verið meiriháttar vandi með hús á þessu svæði sem eru með kjallara. Skólinn var ekki byggður samkvæmt þeim stöðlum sem við notum í dag.“

Borgaryfirvöld hafa til þessa verið öll að vilja gerð til að leysa málið í samráði við foreldra. Því var ráðist í endurbæturnar vorið 2019 og svo aftur í sumar. Valgerður segir að ekki sé hægt að skauta fram hjá því að börn verði veik í húsnæðinu. „Þetta eru frísk börn þegar þau eru ekki í skólanum. Miðað við allt sem á undan er gengið þá ættu öll viðvörunarljós að blikka.“